-10.3 C
Selfoss

Stekkjaskóli tekur vel á móti sínum fyrstu nemendum í haust

Vinsælast

Undirbúningur á skólastarfi í hinum nýja grunnskóla á Selfossi, Stekkjarskóla gengur vel. Skólinn mun opna dyr sínar haustið 2021. Nemendafjöldi er áætlaður í kringum 150, en erfitt er að segja til um endanlegan fjölda í sístækkandi sveitarfélagi. Dagskráin hafði samband við þau Hilmar Björgvinsson, skólastjóra og Ástrósu Rún Sigurðardóttur, aðstoðarskólastjóra, en þau eru nú í óða önn að undirbúa skólastarfið og opnun skólans næsta haust.

Margir vilja taka þátt í uppbyggingu skólans

Aðspurð um hvernig undirbúningur fyrir haustið gangi segja Hilmar og Ástrós: „Undirbúningur gengur vel. Verkefnin eru fjölbreytt og skemmtileg og snúa að húsnæðismálum, faglegu starfi, ráðningum starfsmanna, búnaðarkaupum og komu nemenda í nýjan skóla. Skólahúsnæðið sem tekið verður í notkun í haust verður mjög fínt, hefðbundnar kennslustofur þar sem breiður og góður gangur tengir stofurnar saman. Í lok mánaðarinsverða auglýstar kennarastöður og aðrar stöður við skólann.  Nú þegar hafa margir haft samband við okkur stjórnendur og sýnt mikinn áhuga á að taka þátt í uppbyggingu skólans og sjá mörg tækifæri í því að vera með frá upphafi. Það er virkilega ánægjulegt að finna fyrir þessum áhuga og velvilja og er mikil hvatning fyrir okkur.“

Grunnáhersluþættir skólans er teymisvinna og teymiskennsla

Aðspurð um um stefnu og kennsluhætti skólans segja þau bæði að frá stofnun skólans verði unnið með hugmyndafræði lærdómssamfélagsins ásamt því að móta framtíðarsýn skólans með skólasamfélaginu. „Við viljum móta framtíðarsýn skólans með starfsfólkinu okkar, nemendum og foreldrum og stuðla þannig að lýðræði og jafnrétti í skólasamfélaginu okkar. Þessi hugmyndafræði hefur verið leiðarljós í skólaþróun í sveitarfélaginu á undanförnum árum. Einn af grunnáhersluþáttum skólans verður teymiskennsla og teymisvinna.“

Skólabyggingin styður vel við starfsemina

Aðspurð um skólabygginguna segja þau: „Nýja skólabyggingin sem tekin verður í notkun haustið 2022 er hönnuð með teymiskennslu í huga. Við erum gífurlega ánægð með þá hönnun en að okkar mati styður hún við þessa kennsluhætti eins og best verður á kosið.  Hver árgangur verður með sitt afmarkaða rými, opið rými fyrir hina ýmsu vinnustöðvar, kennslustofu fyrir innlagnir og vinnuhópa og tvö minni hópherbergi fyrir þá nemendur sem þurfa sérstakt utanumhald. Hér er svo sannarlega hugsað um að hægt verði að koma til móts við þarfir hvers og eins nemanda. Líta má á innleiðingu teymiskennslu sem leið að því að skapa lærdómssamfélag, en rannsóknir benda til þess að teymiskennsla leiði oftar en ekki til jákvæðrar skólamenningar, fjölbreyttari kennsluhátta og lýðræðislegri starfshátta.

Stórkostlegt að fá móta skóla frá grunni

Aðspurð um hvernig það leggist í þau að móta starfið frá grunni segja þau: „Að koma að nýjum skóla og uppbyggingu hans er stórkostlegt tækifæri. Þetta er mikil áskorun, bæði fyrir okkur og starfsmannahópinn. Við lítum hins vegar svo á, að tækifærin séu miklu fleiri, bæði fyrir okkur og starfsfólkið okkar. Að byrja með 150 nemendur í skólanum eykur nándina, bæði milli nemenda og starfsfólks og við trúum því að fyrsta skólaárið verði farsælt, þrátt fyrir að hefja starfið í færanlegum kennslustofum. Eins og áður hefur komið fram verður það húsnæði nýtt og hlýlegt. Við höfum fengið tækifæri til að koma að hönnun rýmisins með fagleg sjónarmið sem tengjast kennsluháttum, samþættingu námsgreina og praktískum hlutum er snúa að daglegu starfi.  Fyrir alla þá sem hafa áhuga á skólaþróun er þetta frábært tækifæri og í raun og veru einstakt. Það er ekki á hverjum degi sem við byggjum nýjan grunnskóla í sveitarfélaginu okkar og því erum við sérstaklega þakklát fyrir að vera treyst í þetta verkefni.  Þess má geta að við höfum nú þegar sótt um styrk í Sprotasjóð Mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem styður við þróun og nýjungar í skólastarfi.

 

Nýjar fréttir