7.3 C
Selfoss

Árborg verður móttökusveitarfélag fyrir flóttamenn

Vinsælast

Félagsmálaráðuneytið hefur leitað til sveitarfélagsins Árborgar um að gerast móttökusveitarfélag við flóttafólk. Nú þegar eru nokkrir einstaklingar að þiggja þjónustu hjá sveitarfélaginu Árborg sem myndu falla innan verkefnisins.

Verkefnið miðar fyrst og fremst að einstaklingum sem búa nú þegar á Íslandi og hafa hlotið alþjóðlega vernd. Meirihluti mögulegra þátttakenda í verkefninu eru einstaklingar sem nú þegar dvelja á landinu. Með þátttöku í verkefninu er sveitarfélagið að tryggja öflugri og betri þjónustu við fólk af erlendum uppruna. Markmiðið er að aðlögunin verði sem farsælust, að einstaklingar aðlagist fyrr inn í samfélagið og að spornað sé við frekari félagslegum vandamálum. Jákvæð samlegðaráhrif farsællar aðlögunar í samfélagið er að einstaklingar þurfa síður aðstoð úr velferðarkerfinu til langs tíma auk þess sem að afleiddur kostnaður s.s. vegna skóla, félagsþjónustu, frístundar barna o.fl. ætti að vera minni með snemmtækum stuðningi og þjónustu.

Í fundargerð bæjarráðs kemur fram: „Beinn kostnaður sveitarfélagsins ætti að vera nánast enginn þar sem verkefnið stendur straum af launakostnaði sérfræðings og fær sveitarfélagið endurgreiddan útlagðan kostnað vegna þeirra sem falla undir verkefnið samkvæmt 15. gr laga um félagsþjónustu nr. 40/1991. Í dag eru starfsmenn innan félagsþjónustu að sinna þessum hópi og mun sérfræðingurinn taka þau verkefni auk þess sem ávinningur verður með aukinni þekkingu og samstarfi innan félagsþjónustu. Verkefnið er til reynslu í eitt ár og höfum við starfsmann sem er að ljúka störfum innan málaflokksins sem er tilbúinn að taka þetta verkefni að sér.“

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að Svf. Árborg gerist móttökusveitarfélag við flóttafólk með samningi við félagsmálaráðuneytið í samræmi við fyrirliggjandi kröfulýsingu.

 

Nýjar fréttir