Í lögum um leikskóla segir, „Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og er fyrir börn undir skólaskyldualdri. Leikskóli annast að ósk foreldra uppeldi, umönnun og menntun barna á leikskólaaldri.“ Með lögum hefur Alþingi sett reglur um það hvernig umgjörð leikskóla skuli vera og hvað skuli þar fara fram og með hvaða hætti. Lögin segja með skýrum hætti að leikskólinn sé fyrsta skólastigið og felur síðan sveitafélögum ábyrgðina á rekstri hans. En í lögunum segir einnig, „ Sveitafélög bera ábyrgð á starfsemi leikskóla. Sveitarfélög hafa forustu um að tryggja börnum leikskóladvöl og bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leikskólum sveitarfélags, þróun einstakra leikskóla, húsnæði og búnaði leikskóla, sérúrræðum leikskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirlit, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd leikskólastarfs í sveitarfélaginu.“
Fyrsta skólastigið
Með setningu þessara laga um leikskóla þá ákvað ríkisvaldið að leikskólinn væri fyrsta skólastigið og þar með er það búið að ramma þessa starfsemi inn líkt og gert var áður með grunnskóla landsins. Við yfirfærslu grunnskólanna til sveitarfélaganna, fylgdu með fjármunir frá ríki til sveitarfélaganna til að standa undir rekstri þeirra og framfylgja þeim lögum og reglum sem um þá eru. En við „óformlega“ yfirfærslu leikskólanna til sveitarfélaganna, með lagasetningu ríkisvaldsins og ákvörðun um að þeir væru fyrsta skólastigið, fylgdu ekki með neinir fjármunir. Það er löngu kominn tími á að ríkisvaldið veiti fjármunum til þessa málaflokks, í rekstri sveitarfélaganna, með því að veita sveitarfélögum á Íslandi, meiri hlutdeild í útsvars- og skatttekjum hins opinbera.
Hvað kostar rekstur leikskóla?
Rekstrarkostnaður leikskóla hjá sveitarfélögum á Íslandi hefur hækkað verulega á undanförnum árum, með auknum gæðum þjónustunnar og meiri kröfum um menntun leikskólabarna og faglegt starf. Í Sveitarfélaginu Árborg, árið 2019, var rekstrarkostnaður á hvert barn í leikskólum kr. 2.324.000,- og hlutfall greiðslu foreldra, með leikskólagjöldum, í þeim kostnaði 14%. Fyrir ekki mörgum árum síðan var þetta hlutfall um 30%. Sveitarfélögin hafa mikinn metnað í þessum rekstri og að mennta okkar yngstu þegna og undirbúa þá fyrir lífið, ásamt foreldrum þeirra. En það er löngu tímabært að ríkisvaldið viðurkenni skyldu sína til að taka þátt í þessari menntun eins og annarri menntun í landinu.
Fyrir hvern er leikskólinn ?
Í daglegri umræðu kemur oft upp þessi spurning, fyrir hvern er leikskólinn, er hann fyrir barnið, foreldrana, vinnuveitendur eða aðra. Mikil umræða skapast á hverju ári um framkvæmd sumarleyfa í leikskólum. Í flestum sveitarfélögum er leikskólum lokað á meðan sumarleyfi leikskólakennara og annarra starfsmanna fer fram. Með nýjum kjarasamningum leikskólakennara eru þetta orðnir 30 dagar. Þetta kemur sér mjög illa fyrir marga foreldra og vinnuveitendur þeirra og vilja margir að þessum sumarlokunum verði hætt og skólarnir opnir allt árið. Þar togast á vilji foreldra og síðan leikskólakennara. Þar á milli eru síðan sveitarfélögin sem reka skólana og ákveða að endingu hvernig þessum málum skuli háttað. Það er ljóst að á milli allra þessa aðila þarf að fara fram enn meira samtal um það, fyrir hvern er leikskólinn og hvernig starfsemi hans fer fram.
Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltrúi Framsóknar og óháðra í Svf. Árborg.