-10 C
Selfoss

Veiðar á flugfýl bannaðar?

Vinsælast

Gömul hefð

Áður fyrr tíðkaðist það á hverju heimili á stórum svæðum, sérstaklega undir Eyjafjöllum, að veiða fýlsunga til vetrarins. Víða er þessum sið enn viðhaldið, hefðanna vegna og til að veiði- verkunar- og matreiðsluaðferðir að þessu leyti falli ekki í gleymskunnar dá. Nýlega mælti umhverfisráðherra fyrir frumvarpi um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Í lögunum er að finna nokkur nýmæli, en það sem vakti athygli mína við fyrstu sýn var að ef frumvarpið verður óbreytt að lögum munu svæðis- og hefðbundnar veiðar á fýlsungum alfarið leggjast af.

Heyra þessar veiðar sögunni til?

Í tíundu grein frumvarpsins er lagt bann við veiðum á ófleygum ungum. Það hefur tíðkast á svæðum undir Eyjafjöllum alla tíða að veiða fýlsunga. Þó þessi siður, sem var algengur á þessum slóðum og reyndar víðar, sé nú stundaður í miklu minna mæli, þá heldur fólk í gamlar hefðir bæði við veiðar og matseld að þessu leyti. Það væri því mikil eftirsjá í því að leggja fortakslaust bann við þessum sið. Veiðar í svo smáum stíl ættum við að halda í og leyfa. Flugfýllinn lendir oft í sjálfheldu og á þá fyrir höndum hungurdauða eða verða æti fyrir varg.

Víðtækar heimildir til ráðherra og stofnana hans

Í frumvarpinu er að finna víðtækar heimildir til handa ráðherra til friðunar með setningu reglugerða, svo sem um friðun fuglabjarga. Þá er að finna í frumvarpinu ákvæði um veiðivörslu Umhverfisstofnunar sem tekur yfir allt landið. Veiðivarslan mun fylgja ákveðin eftirlitsáætlun sem verði undanþegin upplýsingalögum. Í þinginu hef ég varað við sífellt auknu framsali löggjafans á valdi til ráðherra og auknum heimildum stofnanna til einhvers konar lögreglu- og sektarvalds og hér er skýr dæmi um slíkt.

Umsagnarferli

Nú eru þetta frumvarp í umsagnarferli og er öllum frjálst að senda inn athugasemdir við það sem og önnur sem eru til meðferðar í þinginu og nefndum þess.

Karl Gauti Hjaltason

kgauti@althingi.is

Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

 

Nýjar fréttir