-13.1 C
Selfoss
Home Fréttir Ég er undarlega innréttaður í vali á bókum og höfundum

Ég er undarlega innréttaður í vali á bókum og höfundum

0
Ég er undarlega innréttaður í vali á bókum og höfundum
Guðbjartur Ólason.

Guðbjartur Ólason er miðaldra skólastjóri sem hefur einlægan áhuga á söfnun á þjóðdúkkum og þjóðlegum fróðleik. Að öðruleyti er hann ráðgáta.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er að lesa Ævintýri góða dátans Svejks eftir Jaroslav Hájek. Hef þann sið að endurlesa eina uppáhaldsbók við upphaf hvers árs. Að þessu sinni var það Dátinn sem varð fyrir valinu. Þessi siður er að mínum dómi svipað og hitta gamlan vin eftir langan aðskilnað. Stundum eru þessir endurfundir gleðilegir en það hendir samt að þeir hafi annað yfirbragð. En samt hefur hver endurfundur sinn blæ. Stundum eru bækur betri í minningunni og standa ekki undir fyrri kynnum við endurlestur enda er lesandinn ekki sá sami og var. Góði dátinn fyllir enn flokk þeirra bóka sem stendur fyrir sínu. Ég prófaði að lesa aftur Ulysses eftir James Joyce en við fyrsta lestur fannst mér sem um Fjallið eina væri að ræða en ég get fullyrt að einn lestur nægir mér. Hvað um það, Góði dátinn Svejk svíkur engan nema kannski bara ömmu sína.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég er orðinn mjög hrifinn af ljóðabókum í seinni tíð. Var síðast að lesa Og hugleiða steina eftir Sigfús Daðason sem var jafnframt hans síðasta bók. Þá les ég töluvert af sagnfræðilegu efni það seinasta sem ég las var bók eftir Antony Beevor um spænsku borgarastyrjöldina. Svo dett ég í einstaka heimspekirit Philosophy and the Mirror of Nature eftir bandaríska heimspekinginn Richard Rorty var það síðasta sem ég las í þeim geira. Mæli með henni við alla verkhyggjumenn en aðra ekki.

Ertu alinn upp við lestur?

Las þessa hefðbundu bókaflokka eins og Enid Blyton, Ævintýri Tinna og Guðrúnu Helgadóttur. En byrjaði ekki að lesa barnabækur að ráði fyrr en á unglingsárum þegar ég las Hobbitan fyrst og Hringadróttinssögu og kolféll fyrir sagnaheimi Tolkiens. Maður var alinn upp í þessum bókmennta(fj)anda og honum haldið að manni frá barnæsku. Jú mikil ósköp, það var lesið fyrir mann þangað til maður leið út af. Hamskiptin eftir Franz Kafka er besta bók sem ég hef lesið, hana las ég þegar ég var þrettán ára og hún er enn á þeim stalli eftir ótal lestra.

En eitthvað um lestrarvenjur þínar að segja?

Ég les þegar færi gefst, annars ekki.

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Af ljóðskáldum eru það Jóhann Sigurjónsson, Jón Helgason, Einar Benediktson, Hannes Péturson og Jóhann Jónsson í þessari röð. Af skáldsagnahöfundum eru það Franz Kafka, Halldór Laxness, Joseph Conrad, William Faulkner og Imre Kertész í þessari röð. Ég held upp á þessa höfunda vegna þess að ég hef þennan smekk og er undarlega innréttaður.

En hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Það hefur komið fyrir til dæmis þegar ég las Örlögleysi eftir Imre Kertész í þýðingu Hjalta Kristgeirssonar, bróður Hergeirs heitins.

Að lokum Guðbjartur, hvernig verk myndir þú skrifa sem rithöfundur?

Lélega stofurómana. Ef mig þryti ekki erindið.

 

___________________________________

Lestrarhestur númer 108. Umsjón Jón Özur Snorrason.