-14.3 C
Selfoss
Home Fréttir Siglum Þorlákshöfn í höfn

Siglum Þorlákshöfn í höfn

0
Siglum Þorlákshöfn í höfn

Það var ánægjulegt fyrir ungan þingmanninn, sem hafði verið nýkjörinn á Alþingi og kosinn af Alþingi til að sitja í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins, að fá boð frá bæjarstjóra og hafnarstjóra Þorlákshafnar til að ræða málefni hafnarinnar. Ég fór sumarið 2013 ásamt Haraldi Einarssyni þáverandi þingmanni kjördæmisins og við hittum félagana á Hendur í Höfn þar sem hugmyndir um bætta og betri höfn voru ræddar og hvernig málinu yrði fylgt eftir á vettvangi Alþingis. Áður höfðu verið fluttar af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þingsályktunartillögur um stórskipahöfn í Þorlákshöfn og hef ég verið meðflutningsmaður á slíkum tillögum nokkrum sinnum. Ég hef trú á því að sú verði raunin einn daginn að farið verði í enn frekari hafnarframkvæmdir við Þorlákshöfn þegar núverandi framkvæmdir hafa sannað sig.

Tekist hefur að stíga nokkur skref í síðustu samgönguáætlunum varðandi breytingu og eflingu núverandi hafnar í Þorlákshöfn. Bæjaryfirvöld í samstarfi við atvinnulífið hafa náð að hámarka nýtingu á þeim hafnarmannvirkjum sem eru til staðar og hefur það sannað mikilvægi öflugra samgönguinnviða. Það hefur því verið gleðilegt að taka þátt í að koma enn frekari uppbyggingaráformum áfram inn í samgönguáætlun og fjármálaáætlanir Alþingis. Sú vinna hefur verið drifin áfram á skýrri sýn heimafólks og atvinnulífs á nýtingu þeirra tækifæra sem öflugir innviðir eins og vel staðsett höfn skapar. Með þá góðu reynslu, skýru sýn og vel unna heimavinnu bæjarstjóra og kjörinna fulltrúa í Þorlákshöfn hefur náðst góður skilningur hjá samgönguyfirvöldum, þingmönnum kjördæmsins og Alþingi á mikilvægi og nauðsyn þeirra framkvæmda sem nú eru í lokaundirbúningi og verður byrjað á að bjóða út núna á næstu mánuðum. Ég hlakka til að vinna áfram með ykkur að þessum mikilvægu verkefnum og sjá þau skila blómstrandi samfélagi þegar landfestarnar verða orðnar fastar.

Vilhjálmur Árnason alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og framsögumaður samgönguáætlunar.