-12.1 C
Selfoss

Selfoss karfa í samstarf með Real Betis

Vinsælast

Selfoss Karfa kynnir með stolti verkefni sem unnið hefur verið að undanfarna 12 mánuði með Real Betis á Spáni.

Um er að ræða samning um náið samstarf þessara tveggja félaga við uppbyggingu ungra og efnilegra leikmanna til að undirbúa þá fyrir hæsta getustig körfuboltans. Félögin munu vinna að sameiginlegri, faglegri sýn er varðar liðsuppbyggingu, umgjörð, þróun leikmanna frá öllum hliðum og hinum æðri markmiðum körfuboltans.

Real Betis er félag sem leikur í ACB deildinni á Spáni, deild sem talin er vera sú besta í heimi, að NBA deildinni frátalinni. Samstarf við spænska liðið er því stórt skref fram á við fyrir okkar litla félag, mikilvægur stuðningur við áframhaldandi vaxtarmöguleika og sókn Selfoss Körfu að háleitum markmiðum á öllum sviðum.

Vinnan við þennan samning sem nú hefur verið undirritaður hófst að frumkvæði Chris Caird, aðalþjálfara Selfoss Körfu, sem hefur verið í stöðugum og miklum samskiptum við fulltrúa spænska félagsins undanfarið ár.

„Þetta hefur verið afar spennandi ferli og skemmtilegt að mynda ný sambönd“, segir Chris. „Það er mikil lyftistöng og opnar nýjar víddir fyrir unglingastarfið okkar að fá innsýn í starf og þjálfunaraðferðir á svo háu getustigi. Að læra af Real Betis, félagi sem hefur ‘framleitt’ NBA leikmenn eins og Porzingis, Satoranski og Hernangomez, ásamt mörgum öðrum leikmönnum á efsta getustigi, veitir skilning á því hvaða leiðir eru vænlegastar til að þróa áfram akademíuna okkar, allt starf og skipulag. Það er ómetanlegt að fá til okkar einn af aðstoðarþjálfurunum þeirra og við erum einnig afar spennt að fá að vinna með sumum af þeirra efnilegu leikmönnum hér á Selfossi. Það er heldur ekki lítils virði fyrir okkar metnaðarfullu krakka að vita af fulltrúa Real Betis inni á gólfi á okkar heimavelli, með augun opin fyrir efnilegum leikmönnum sem gætu í framtíðinni átt möguleika á að kynnast unglingastarfinu í Sevilla – og kannski einn daginn orðið leikmenn í ACB deildinni (Liga Endesa).“

Stjórn Selfoss Körfu er afar ánægð með þróun mála og þakkar hlutaðeigandi fyrir mikla og óeigingjarna vinnu. Samningurinn brýtur blað í starfi félagsins að markmiðum sínum um gjöfult og gott uppbyggingarstarf fyrir ungdóminn, sem skapar þeim glæst tækifæri í framtíðinni og mun skila félaginu árangri á efri stigum.

Frétt af vef Selfoss körfu

Nýjar fréttir