-10.5 C
Selfoss
Home Fréttir Ný úrgangsstefna: Endurvinnslusamfélag

Ný úrgangsstefna: Endurvinnslusamfélag

0
Ný úrgangsstefna: Endurvinnslusamfélag
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra.

Framtíðarsýnin þarf að vera skýr: Sjálfbær nýting auðlinda, þar sem hugað er að góðri nýtingu hráefna og löngum endingartíma vöru strax við hönnun og framleiðslu. Ný úrgangsstefna innleiðir kerfi sem ýtir undir deilihagkerfið, viðgerðir, endurnotkun og endurvinnslu. Hún ýtir undir að við umgöngumst úrgang sem verðmæti sem hægt er að búa til eitthvað nýtt úr. Þetta er það sem kallað er hringrásarhagkerfi, þar sem hráefnin eru notuð hring eftir hring. Slíku hagkerfi þarf að koma á í stað línulegs framleiðsluferlis, þar sem vörur eru notaðar, oft í stuttan tíma, og þeim síðan einfaldlega hent. Hættum slíkri sóun.

Komum á hringrásarhagkerfi

En til þess að hringrásarhagkerfið verði að veruleika þarf að gera breytingar á gangverkinu; gera íslenskt samfélag að endurvinnslusamfélagi. Í því miði þarf að setja fram efnahagslega hvata, skýrar reglur og ábyrgð og auka fræðslu. Í gær lagði ráðuneyti mitt drög að stefnu um meðhöndlun úrgangs  í samráðsgátt stjórnvalda, þar sem settar eru fram 24 aðgerðir í átt að hringrásarhagkerfi. Á yfirstandandi löggjafarþingi verður frumvarp um breytingar á úrgangslöggjöfinni lagt fram á Alþingi. Undirbúningur að stefnunni og frumvarpinu hefur staðið yfir í á þriðja ár hjá Umhverfisstofnun og í ráðuneytinu.

Minni losun gróðurhúsalofttegunda

Markmið nýrrar stefnu er að hringrásarhagkerfi verði virkt, dregið verði verulega úr myndun úrgangs, endurvinnsla aukin og urðun hætt. Um leið myndi draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda frá meðhöndlun úrgangs, sem styður við alþjóðlegar skuldbindingar okkar og markmið Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040. Framtíðarsýnin er sú að Ísland verði meðal leiðandi þjóða í loftslagsmálum og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.

Róttækra breytinga er þörf

Magn heimilisúrgangs á hvern íbúa hér á landi er með því mesta sem gerist meðal EES-ríkja og er endurvinnsla heimilisúrgangs of lítil og of mikið af honum urðað. Þessu verðum við að breyta hið snarasta, því við erum að sóa verðmætum með því að henda of miklu og endurvinna of lítið, auk þess sem urðunin veldur losun gróðurhúsalofttegunda og skiptir því máli í loftslagsbókhaldi Íslands. Ný úrgangsstefna miðar að því að breyta þessu.

Skyldum flokkun og bönnum urðun

Af aðgerðunum 24 sem settar eru fram í stefnunni er stefnt að því að 12 verði lögfestar strax á þessu ári. Þetta eru meðal annars aðgerðir sem ganga út á að skylda flokkun úrgangs frá heimilum og fyrirtækjum, samræma merkingar fyrir mismunandi gerðir af úrgangi, safna lífrænum úrgangi sér og einnig plasti, pappír og pappa, gleri, textíl og spilliefnum. Þannig verða þessir úrgangsstraumar sem hreinastir og henta því betur til endurvinnslu. Jafnframt verði bannað að urða þessar mismunandi tegundir af úrgangi sem safnað er sérstaklega.

Borgum minna ef við flokkum og endurvinnum

Með aðgerðum í stefnunni  verða líka innleiddir efnahagslegir hvatar þannig að neytendur og fyrirtæki borgi fyrir það sem þau henda og borgi minna fyrir það sem fer til endurvinnslu en til urðunar. Einnig verður lagt til að allar umbúðir og ýmsar vörur úr plasti verði færðar undir framlengda framleiðendaábyrgð. Það þýðir að framleiðendur og innflytjendur fjármagna og tryggja meðhöndlun vörunnar þegar hún er orðin að úrgangi, í stað þess að neytendur beri kostnaðinn. Þá verða gerðar ráðstafanir til þess að hefja löngu tímabæra endurvinnslu á gleri.

Stuðningur við  endurvinnslu

Mikilvægur þáttur í bættri meðhöndlun á úrgangi er að bæta tölfræði yfir úrgang og að tryggja að úrgangur sem fluttur er úr landi endi í viðeigandi meðhöndlun. Þá er í stefnudrögunum gert ráð fyrir sérstökum stuðningi við heimajarðgerð og við uppbyggingu innviða sveitarfélaga og fyrirtækja sem styðja við endurvinnslu, ekki síst hérlendis. Jafnframt er í drögunum að finna aðgerðir sem styðja eiga sérstaklega við sveitarfélög við að innleiða bætta úrgangsstjórnun.

Skýr framtíðarsýn

Framtíðarsýnin er skýr: Að nýta auðlindir miklu betur, sóa minna og búa til verðmæti og nýjar vörur úr úrgangi. Þetta er mikilvægur hluti hringrásarhagkerfis sem ný úrgangsstefna innleiðir. Ég hvet sem flesta til að senda inn athugasemdir við drögin.