-10.5 C
Selfoss
Home Fréttir Grænt þýðir áfram

Grænt þýðir áfram

0
Grænt þýðir áfram

Þegar við hugsum um mismunandi áherslur í málefnum samfélagsins þá samanstendur samfélagið af fjölbreyttu fólki með mismunandi langanir, drauma og þrár með fjölmörg markmið. Það er ávallt erfitt að mæta þörfum allra þegar verið er að ráðast í kerfisbreytingar eða setja á fót úrræði til að mæta erfiðum aðstæðum líkt og hafa verið síðastliðið ár. Þetta ár hefur þó kennt okkur að það er ýmislegt hægt að gera með lítið. Ef við horfum til síðasta árs þá hefur það verið eitt það lærdómsríkasta í seinni tíð og verður skráð í sögubækurnar sem slíkt. Við hægðum á okkur, kunnum enn betur að meta samveru, líkamlega og andlega heilsu ásamt öllu því sem lífið hefur uppá að bjóða. Lífstílskapphlaupið var sett á hilluna í nokkra mánuði og við gerðum hlutina öðruvísi. Það má segja að ákveðin núllstilling hafi átt sér stað.

Við áttuðum okkur á því að hindranirnar eru í raun ekki svo margar og möguleikarnir eru endalausir ef augun horfa í átt að sjóndeildarhringnum. Við höfum séð fjölmörg rök fyrir því að störf án staðsetningar séu illframkvæmanleg og hafa þau orðið að engu þar sem samfélagið og tæknin tók stökkbreytingum og varð raunveruleiki margra fyrirtækja. Velferðar- og heilbrigðiskerfið tók við sér og mætti með krafti þeim vanda sem kom upp og með litlum fyrirvara voru allt önnur tannhjól byrjuð að snúast. Kerfisbreytingar síðustu þriggja ára hafa verið hugrakkar og framsæknar en það er nákvæmlega það sem þarf til þess að ráðast í róttækar breytingar á samþættingu þjónustu í þágu barna, lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði, bæta aðgengi þolenda ofbeldis að viðhlítandi aðstoð, ásamt því að búa til umhverfi þar sem tekjulágir einstaklingar geta eignast sína eigin fasteign með tilkomu hlutdeildarlána. Ekki má gleyma þeim breytingum sem gerðar voru á námslánakerfi íslenskra námsmanna með tilkomu Menntasjóðs. Þá hafa samgöngur verið bættar svo um munar og með Loftbrúnni tengjum við betur landsbyggðina við höfuðborgina sem felur í sér miklar umbætur í samgöngum.

Það er hægt að eiga langar samræður um það sem hefur verið gert á þessu kjörtímabili, enda er listinn nokkuð langur. Miklar framfarir hafa orðið í ýmsum málaflokkum og hrósa skal því sem vel er gert. Vinnan er þó aðeins að byrja og því þarf að blása til sóknar,  snúa tannhjólum atvinnulífsins í gang að nýju og horfa með framsækinn hátt á verkefnin sem framundan eru. Þau eru mörg, þau eru stór og þau eru umfangsmikil. Ég hef þó fulla trú á því að með framþróun, framtíðarsýn og Framsókn eru okkur allir vegir færir. Munum að umferðarljósin segja okkur að rautt þýðir stopp, gult þýðir bið og grænt þýðir áfram veginn. Áfram með von um betri tíma, vöxt, nýtt upphaf, endurnýjun og frið.

 

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, lögfræðingur og gjaldkeri Framsóknarfélags Árborgar.