-7.8 C
Selfoss

Háhitadjúpdæla stórt framfaraskref í nýtingu jarðvarma

Vinsælast

Undanfarna mánuði hefur notkun háhitadjúpdælu í hitaveituborholu verið prófuð í Hveragerði. Er það í fyrsta skipti í heiminum sem slík dæla er notuð í svo heitum jarðhitavökva en búnaðurinn hefur verið þróaður og notaður í olíugeiranum. Hingað til hefur jarðhitavatni að 130°C verið dælt með hefðbundnum dælubúnaði hér á landi og erlendis þekkist að dælt sé vatni sem er allt að 160°C heitt. Með háhitadælunni munu Veitur nýta búnaðinn í enn heitara vatni eða allt að 180°C. Dælan, sem er staðsett í borholu hitaveitunnar í Hveragarðinum, hefur reynst vonum framar síðan hún var sett niður í októbermánuði.

Þrýstingur hefur verið fallandi í jarðhitakerfinu í Hveragerði og hefur það reynst krefjandi verkefni að tryggja nægt heitt vatn fyrir hitaveituna. Á sama tíma er vitað að mikill hiti er í svæðinu en ekki hefur verið hægt að nýta hann þar sem hefðbundinn dælubúnaður skemmist í slíkum aðstæðum.

Tilkoma háhitadjúpdælunnar gerir Veitum kleift að reka borholur hitaveitu án þess að láta þær blása gufu. Það er mikill kostur þar sem tvær holur af þremur, sem eru í notkun í Hveragerði, eru staðsettar í miðri byggð.  Með nýju dælunni eykst afkastageta borholunnar í Hveragarðinum og mun hún því bæta rekstraröryggi hitaveitunnar. Hún býður einnig upp á betri stýringar á magni heits vatns sem tekið er úr henni og þar með verður enn betri nýting á þeirri dýrmætu auðlind sem heita vatnið er.

Notkun háhitadjúpdælu í hitaveitu er þróunarverkefni enn sem komið er. Reynist búnaðurinn áfram vel er um að ræða mikið framfaraskref í nýtingu jarðvarma, ekki bara hér á landi heldur á heimsvísu.

Nýjar fréttir