-11.4 C
Selfoss

Engin matvöruverslun á Klaustri

Vinsælast

Það er langur vegur í næstu matvöruverslun fyrir íbúa Skaftárhrepps eftir að verslunin Kjarval lokaði dyrum sínum í sveitarfélaginu nú um áramót. „Hjá okkur í Skaftárhreppi er stærsta áskorun nýs árs að finna leið til þess að opna aftur matvöruverslun á Klaustri,“ segir í tilkynningu frá sveitarfélaginu. Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga tekur undir þessar áhyggjur en lokunin hefur umtalsverð neikvæð áhrif á byggðaþróun í Skaftárhreppi og rýrir samkeppnishæfi sveitarfélagsins sem ákjósanlegs búsetukosts til framtíðar. „Í ljósi þess að þúsundir manna fara um Skaftárhrepp á hverjum degi í eðlilegu árferði hlýtur staðsetning fyrir verslun á Kirkjubæjarklaustri að teljast fýsilegur kostur,“ segir í fundargerð stjórnar SASS. Þá er áréttuð nauðsyn þess að í sveitarfélaginu sé rekin dagvöruverslun.

Afar bagalegt og allra leiða leitað

Í samtali við Evu Björk Harðardóttur oddvita Skaftárhrepps kemur fram að ástandið sé afar bagalegt fyrir íbúa sveitarfélagsins. „Það er ótækt að vera ekki með verslun í sveitarfélaginu. Ekki bara fyrir íbúa þess, en í venjulegu árferði er gríðarleg umferð í gegn um svæðið.“ Eva Björk sagði jafnframt að verið væri að leita allra leiða til þess að fá verslun í sveitarfélagið sem fyrst. „Við erum að vinna í þessu máli og skoða alla hugsanlega rekstraraðila að verslunum. „Það verður verslun í sveitarfélaginu, það er ljóst,“ segir Eva að lokum.

Nýjar fréttir