-0.7 C
Selfoss

Í prentinu í fimmtíu ár

Vinsælast

Það er komið að tímamótum hjá Erni Grétarssyni, prentsmiðjustjóra hjá Prentmeti Odda á Suðurlandi, en hann lét af störfum hjá fyrirtækinu nú um árámót. Örn hefur verið viðloðandi fyrirtækið, sem áður hét Prentsmiðja Suðurlands allt frá því í árslok 1970 eða rúm 50 ár. Á þessum tíma var hann í forsvari í fyrirtækinu í um 33 ár. Af því tilefni settumst við niður og ræddum við Örn um starfið og breytingarnar sem hafa átt sér stað í faginu. Óhætt er að segja að fagið hafi breyst gríðarlega í gegnum tíðina.

 Prentari og trésmiður

Örn Grétarsson, ásamt eigendum Prentmets Odda, Ingibjörgu Steinunni Ingjaldsdóttur og Guðmundi Ragnari Guðmundssyni, og syni þeirra Arnaldi Þór, árið 2006 þegar þau kaupa Prentsmiðju Suðurlands.

Við byrjum á byrjuninni og spyrjum hvers vegna hann valdi prentið umfram annað. „Þetta er ágætis spurning,“ segir Örn og hlær. „Þetta festist við mig meira á sínum tíma. Ég byrjaði að læra prentið í árslok 1970. Þá kom ég hér í prentsmiðjuna sem þá hét Prentsmiðja Suðurlands sem nemi. Ég vann í prentinu um eitt ár eftir að ég lærði iðnina og tók sveinsprófið. Á þeim tíma kynnist Örn konu sinni Sesselju Sigurðardóttir sem komin er af mikilli smíðaætt, sem varð til þess að hann söðlaði um og lærði að auki til húsasmiðs. „Ég fór í smíðanámið nánast strax eftir prentnámið. Ég hafði verið svo forsjáll, sem ég skil nú eiginlega ekkert í, að hafa tekið grunnteikningu meðfram prentinu. Það hjálpaði að vera búinn með dálítið af smíðanáminu og gat þá tekið mikið utan skóla. Við smíðina vann ég í átta ár, eða allt þar til að ég kom aftur í prentið. Mér bauðst vinna í hér við Prentsmiðju Suðurland í kringum 1985. Í árslok 1986 er farið að ámálga það við mig og nokkra úr fjölskyldu minni að við myndum kaupa prentsmiðjuna, eða meirihluta í henni. Það er frá því gengið í mars 1987 og síðan hef ég verið í faginu. Um 2006 seljum við svo Prentsmiðju Suðurlands til Prentmets. Þá ætlaði ég að snúa mér að öðru. Það fór þó svo að Guðmundur Ragnar og Ingibjörg Steinunn eigendur Prentmets Odda báðu mig um að halda áfram, svo hér hóf ég og lauk mínum starfsferli.

Þróunin á faginu gríðarleg

Við ræðum um stund þær breytingar sem átt hafa sér stað á iðngreininni. Þegar Örn er að hefja sitt nám hafði lítið breyst frá því að Gutenberg, sem er faðir prentlistarinnar, notaði lausaletur við uppsetningu á bókum. „Breytingarnar hafa verið með hreinum ólíkindum. Þau vinnubrögð sem við viðhöfðum, sérstaklega í setningunni, voru nánast þau sömu og hjá Gutenberg. Það var notað lausaletur í upphafi en prentið var komið lengra. Svo byrjar þróunin í offsetprentuninni þar sem lausaletrið víkur fyrir filmum og prentplötum. Í dag er þetta nánast þannig að það er send skipun inn í vél og verkið kemur tilbúið út. Mannshöndin er ekki jafn nálægt þessu og var áður. Þetta er byltingakennt þegar maður hugsar út í það þegar verið var að bera blaðsíðurnar í héraðsblöðin sem prentuð voru, þá var það alveg fyrir einn mann að halda á einni síðu í prentvélina.“ Þá ræðum við um hvernig framleiðslutíminn hefur styst og berum saman að það sem þykir einfalt verkefni í dag og sé jafnvel afgreitt á meðan menn bíða hafi verið nærri þriggja vikna ferli áður. „Ef það var t.d. verkefni með ljósmynd í lit gat verkið tekið allt að þremur vikum frá pöntun þar til það var afhent. Í dag er hægt að leggja niður símtólið og viðskiptavinurinn kemur samdægurs að sækja pöntunina.“

Dagskráin skipar sérstakan sess

Það er ekki hægt að komast hjá því að ræða við Örn um Dagskrána, en hann hefur komið að blaðinu með einum eða öðrum hætti nærri allan feril blaðsins. Bæði við ritstjórn, efnisöflun, fréttagerð, prentun og auglýsingasölu svo eitthvað sé nefnt. Það er á Erni að heyra að blaðið eigi taugar í honum. „Maður er búinn að koma að blaðinu ansi lengi. Þar liggja ómetanlegar heimildir sem eru geymdar en ekki gleymdar um líðandi stund hverju sinni. Það er banki sem hægt verður að fletta upp í um sögu byggðarlaganna hér sunnanlands allt frá Selvogi að Lómagnúp. Það er 53. árgangur blaðsins þetta árið og ég hef komið að blaðinu nærri 40 ár af því. Ég er dálítið forn og gamaldags en áhersla mín hefur alltaf verið á að halda til haga sögunni og verið svolítið upp á þann kantinn að glata ekki hlutunum. Þarna er gríðarleg heimild sem liggur og hægt er að skoða.“

Bækurnar gefandi verkefni

Þegar Örn er spurður hvað stendur sérstaklega uppúr á ferlinum er hann fljótur til svars: „Viðkynni við allt það fólk sem ég hef kynnst gegn um tíðina. Af verkefnum hefur það verið að prenta bækur og blöð, en það hefur gefið manni mikið, bæði kynnin við höfunda og félög og félagasamtök, sem hafa staðið að útgáfu bóka og blaða. Þetta er mér mjög gefandi og náttúrulega það sem stendur eftir og er til áfram.“

Hjálpað mikið að fá að gíra sig niður

Ef það er eitthvað sem maður er fljótur að sjá með Örn við fyrstu kynni er að honum falla sjaldan eða aldrei verk úr hendi. Við spyrjum hvernig það er að vera hættur. „Það leggst bara vel í mig. Ég hefði ekki viljað hætta með þeim hætti að vera í fullri vinnu í dag og svo ekkert á morgun. Það hefur hjálpað alveg ótrúlega mikið að fá að gíra sig svona niður. Það ber að þakka fyrir að hafa getað notað síðustu tvö ár til að minnka starfshlutfallið hjá mér. Eftir áfallið fór ég svo að hugsa hlutina upp á nýtt og vildi, ef maður ætti eitthvað eftir, að fá að njóta þess fyrir sig og fjölskylduna án þess að hafa áhyggjur af öðru. Ég vona svo að ég eigi eftir að njóta þess svo lengi sem bensín verður á tanknum og druslan dregur.“

Aðspurður um hvað tekur við segist Örn alla tíð haft mikið fyrir stafni. Hann eigi sér ýmis áhugamál, þau hjónin hafi afdrep í sveitinni sem þeim þykir gaman að snúast í kring um ásamt því að eiga börn og barnabörn sem alltaf er gaman að vera með. Við þökkum Erni fyrir spjallið og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni. Eigendur Prentmets Odda þakka Erni fyrir frábært samstarf. Hann hefur staðið sig gríðarlega vel sem prentsmiðjustjóri á Suðurlandi. Megi komandi tímar verða honum og fjölskyldu hans farsælir.

Nýjar fréttir