2.8 C
Selfoss

Ekki láta plata þig!

Vinsælast

Jólin eru búin og auglýsingarnar eru allsstaðar, samt aðeins öðruvísi en fyrir jól. Við erum víst búin að borða yfir okkur og þurfum nauðsynlega að fara i megrun. Þar sem við erum búin að fitna svo mikið þurfum við líka nauðsynlega að fara á útsölurnar sem eru í gangi til að kaupa okkur ný föt til að vera sátt við okkur sjálf. Eða hvað? Þetta er auðvitað skrifað í kaldhæðni sem þó er byggð á raunveruleikanum. Auglýsingar koma úr öllum áttum. Auglýsingar um megrunarkúra eða eitthvað nýtt sem við þurfum að eignast af því að við fengum ekki nóg í jólagjöf. Skilaboðin sem hljóma eru þú ert ekki nóg, þú þarft að líta betur út, þú þarft að eignast eitthvað nýtt og betra til að líða betur.

Það er mikilvægt fyrir okkur að vera vökulir neytendur. Að átta okkur á því að það er verið að ýta undir óánægju hjá okkur sjálfum og láta okkur halda að við þurfum eitthvað nýtt og betra til að vera hamingjusamari. Staðreyndin er hinsvegar sú að við þurfum ekki að sjá aðra tölu á vigtinni, eignast ný föt eða nýja hluti til að vera hamingjusöm. Hamingjan kemur innan frá og hana þurfum við að grafa eftir og finna. Getur verið að hún leynist undir öllum samfélagsmiðla”skrollinu”, að hún leynist undir “Netflix” áhorfinu eða öllum hlutunum í geymslunni, háaloftinu eða eldhússkápunum. Ég held að svarið sé ekki að eignast meira. Ég held að svarið sé frekar að eiga minna af hlutum, hafa meiri tíma og geta notið hverrar einustu mínutu sem við eigum á þessari jörð.

Svarið er að njóta en ekki þjóta. Skapa, láta drauma okkar rætast og gera öðrum gott.

Mín hvatning til þín kæri lesandi er að byrja þetta nýja ár sem vökull neytandi. Ekki kaupa hvað sem er eða reyna að fylgja tískustraumum.  Áttaðu þig á þvi hvað það er sem veitir þér sanna hamingju. Njóttu samvista við fólkið þitt. Elskaðu sjálfan þig, elskaðu aðra og einfaldaðu lífið þitt.

Ef þú vilt koma í vegferð með mér í átt að því að einfalda lífið þá er ég að fara af stað með ókeypis netáskorun þann 10. Janúar næstkomandi. Þessi áskorun er í tíu daga og mun taka tíu mínútur á dag. Markmiðið er að taka lítil skref í átt að einfaldara lífi. Við þurfum að byrja einhversstaðar og því ekki að byrja þetta ár á einfaldan hátt. Þú getur skráð þig í áskorunina TÍU TÍU á heimasíðunni minni www.gunnastella.is.

Njóttu þess sem þú hefur og átt. Þú þarft ekki meira til að upplifa gleði og hamingju.

 

Kærleikskveðja,

Gunna Stella

Nýjar fréttir