-2.2 C
Selfoss

Höfn í höfn í Þorlákshöfn

Vinsælast

Fyrir rúmum þremur árum urðu vörusiglingar til Þorlákshafnar að veruleika, eftir hundrað ára bið. Aðdraganda þeirra má rekja til þess þegar bændur af öllu landinu komu saman til fundar að Þjórsártúni í janúar 1916. Tilefnið var að berjast fyrir jákvæðri byggðaþróun og uppbyggingu landsins. Í framhaldinu varð Framsóknarflokkurinn stofnaður, 16. desember sama ár, og er því nýorðinn 104 ára. Enn er þörf fyrir flokk sem berst fyrir uppbyggingu landsins. Á fundinum að Þjórsártúni, sem haldinn var úti um miðjan vetur, var samþykkt ályktun um nauðsyn þess að byggja upp höfn í Þorlákshöfn sem myndi tryggja bændum ódýrari og betri flutninga til og frá landinu án afskipta Reykjavíkurvaldsins og kaupmanna.

Haustið 2017 skrifaði ég grein sem birtist í Dagskránni um vörusiglingar til Þorlákshafnar sem þá voru loks nýhafnar, eftir 100 ára bið. Þar hvatti ég Sunnlendinga sem aðra að nýta tækifærin sem út- og innflutningshöfn hefur að færa. Forsenda þess að stærri höfn gæti orðið að veruleika væri sú að ríkisstjórnin kæmi að með aukna fjármuni. Það er því afar ánægjulegt að geta sagt nú, að ríkisstjórnin hefur samþykkt að auka fjármagn svo um munar, til hafnarbótasjóðs og styðja dyggilega við stækkun hafnarinnar í Þorlákshöfn og aðrar brýnar framkvæmdir við hafnir og sjóvarnir. Þetta hefur verið staðfest á Alþingi með nýsamþykktri fjármálaáætlun.

Það er engum blöðum um það að fletta að vöruflutningar um Þorlákshöfn hafa opnað nýja möguleika fyrir ferskflutning á sjávarföngum frá Íslandi til meginlands Evrópu. Eftirspurn eftir vöruflutningum hefur aukist jafnt og þétt á ekki lengri tíma og er árangurinn framar vonum. Tvær vöruflutningaferjur, Mykines og Mistral, sigla á vegum færeyska skipafélagsins Smyril-Line vikulega og hugmyndir eru uppi um farþegarsiglingar frá Þorlákshöfn til Evrópu. Kostirnir eru ótvíræðir með verulegum ávinningi fyrir sunnlenskt atvinnulíf og byggðaþróun. Fyrir utan störf sem skapast við löndun og ýmsa aðra þjónustu þá er sjóflutningstíminn sá stysti til og frá landinu sem styrkir ferskfiskútflutninginn til muna. Flutningur á ferskum sjávarafurðum kemur til með að stóraukast á næstunni þar sem meiri krafa er um að afurðir séu fluttar á markað á sem hagkvæmastan hátt, fyrir umhverfið. Ef fyrirætlanir um stækkun í fiskeldi verða að veruleika þurfa innviðir að vera í stakk búnir til þess að afkasta aukinni framleiðslu á markaði erlendis. Núverandi skip sem venja komu sína til Þorlákshafnar fullnýta stærðarramma hafnarinnar og því er ekki möguleiki á að taka við stærri skipum ef uppfylla á alþjóðlegar öryggiskröfur.

Inn á núgildandi samgönguáætlun er endurbygging á tveimur stálþilsbryggjum í Þorlákshöfn, við Svartaskersbryggju og Suðurvarabryggju auk dýpkunar framan við Svartaskersbryggju. Aukið fjármagn í fjármálaáætlun gefur sveitarfélaginu svigrúm til að ráðast í þær breytingar sem þarf að gera á höfninni til þess að taka á móti stærri skipum og er ekki inn á samþykktri samgönguáætlun. Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis vinnur að forgangsröðun verkefna miðað við aukið fjármagn sem verður lögð fram á nýju ári.

Þolinmæði er dyggð og ekkert gerist af sjálfu sér. Samstaða sunnlenskra sveitarfélaga með Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) hefur skilað sér. Stuðningur þingmanna kjördæmisins var mikilvægur. Áratuga löng barátta er loks í höfn. Jú, það er sagt að við Sunnlendingar séum þolinmóðir. Það þarf þrautseigju og dugnað til. Áfram veginn.

 

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu – og sveitarstjórnarráðherra

 

Nýjar fréttir