-7 C
Selfoss

133 kisur fengu aðstoð Villikatta á Suðurlandi

Vinsælast

Enn einu annasömu ári er að ljúka hjá Villiköttum Suðurlandi. Árið 2020 höfum við annast 133 kisur á ýmsum aldri, þ.e. 66 fullorðnar kisur og 67 kettlinga. Kisurnar koma víðsvegar af Suðurlandi, en Árborg er alltaf stærst, þaðan kom nálægt þriðjungur kisanna. Við höfum verið að vinna í því að ná samningum við sveitarfélög til að hjálpa okkur við að sporna gegn fjölgun villi- og vergangskatta á Suðurlandi, þar sem mannúð er höfð að leiðarljósi. Nú í lok árs fengum við langþráða litla aðstöðu fyrir búrkisur á vegum Árborgar og bindum miklar vonir við að aukið samstarf við Árborg verði farsælt.

Við höfum náð að finna ný heimili fyrir 97 kisur á árinu, auk þess sem aðrar deildir Villikatta hafa aðstoðað okkur við að finna nokkrum heimili. Einungis 11 villikisum hefur verið skilað aftur út á sinn stað eftir geldingu, þar sem þær fá mat og skjól, eftir aðstæðum, og 9 villuráfandi heimiliskisur hafa komist heim til eigendanna. Við sinnum þannig matargjöfum á nokkrum stöðum og fóðurstaurarnir okkar hafa komið í góðar þarfir.

Það sem staðið hefur uppúr á árinu og veldur okkur áhyggjum er hversu margar kisur virðast lenda á flækingi eftir sumarbústaðaferðir eigendanna. Ógeldar kisur sem týnast í svona ferðum gjóta á ólíklegustu stöðum og við höfum staðið í ströngu við að bjarga fullorðnum kisum og litlum kettlingum frá því að verða úti eða fjölga sér óhamið á svona svæðum. Þar hafa myndavélarnar okkar enn og aftur sannað gildi sitt, því það er erfitt að vakta búr allan sólarhringinn fjarri heimilum okkar. Til að sporna við því að kisur týnist í svona ferðum og/eða frá heimilum höfum við reynt að benda fólki á að hafa öryggismálin í lagi m.a. með því að gefa út myndband með ábendingum um öruggar gluggakrækjur og fleira.

Og fjölmargar kisur virðast vera í kringum sveitabæi um allt Suðurland. Við höfum tekið þátt í slíkum risaverkefnum og mikið óunnið í þeim málum. Sömuleiðis höfum við tekið að okkur að gelda og finna heimili fyrir kisur úr dánarbúum, sem misst hafa eigendur sína.

Svona sjálfboðastarf krefst mannafla og mikilla fjármuna. Við höfum verið ótrúlega heppin að fá til liðs við okkur fórnfúsa sjálfboðaliða, sem hafa unnið kraftaverk og verður þeim seint fullþakkað. Sömuleiðis hafa yndislegir einstaklingar og fyrirtæki stutt okkur með matargjöfum, fjárframlögum og fleiru. Við gáfum út nýtt dagatal fyrir árið 2021, í samvinnu við aðrar deildir Villikatta á landinu, til að reyna að afla fjár fyrir lækniskostnaði fyrir kisurnar okkar. Í sumum tilfellum erum við að fá fárveikar kisur, sem þurfa mikla aðstoð. Þessar kisur eru margar tættar og rifnar eftir verganginn, með augnsýkingar og kvef og þurfa margar hverjar að fara í kostnaðarsama tanntöku og sárameðferðir.

Við viljum þakka öllum þeim fjölmörgu, sem hafa hjálpað okkur og stutt á marga vegu. Ekki síst dýralæknum og starfsfólki hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands á Stuðlum. Megi komandi ár verða okkur öllum farsælt, bæði mönnum og dýrum. Gleðilegt nýtt kisuár.

 

Myndir:

(Villikettir)

 

Nýjar fréttir