3.9 C
Selfoss

Konubókastofa – hvað gerum við nú?

Vinsælast

Markmið Konubókastofu á Eyrarbakka er að safna saman rituðu efni sem skrifað er á íslensku eftir íslenska kvenrithöfunda, ásamt því að kynna höfundana og verkin þeirra. En vegna Covid hefur ekki verið létt að uppfylla kynningarhlutverkið. Ekki hefur verið hægt að halda viðburði sem hefur verið ein leið Konubókastofu til að uppfylla það hlutverk. Og hvað gerir maður þá? Okkur í safninu datt í hug að gera hlaðvarpsþætti til að ná eyrum almennings. Þar sitja Anna, stofnandi Konubókastofu, og Katrín stjórnarkona safnsins og ræða saman um bækurnar og höfundana í þættinum “Kaffi á Konubókastofu”. Þættirnir eru stuttir og hægt er að fylgja þeim á hlekk sem birtist á heimasíðu Konubókastofu, á fésbókarsíðu safnsins og á Instagramsíðu, ásamt því að hægt er að nálgast þættina á Spotify. Upptaka og framleiðsla þáttanna er í umsjón jons.is.

Skortur á viðburðum hefur líka gert það að verkum að lítið fjármagn berst til safnsins. Sem betur fer á Hagsmunafélag Konubókastofu góða stuðningsaðila sem styrkja reksturinn og þannig hefur verið hægt að halda úti heimasíðunni. Annar tilfallandi kostnaður hefur verið greiddur með frjálsum framlögum.

ÞEGAR  það verður hægt munu fara fram kynningar á höfundunum og verkum þeirra á safninu sjálfu og hafa nú þegar nokkrir höfundar tekið jákvætt í þá beiðni. Hlaðvarpsþættirnir munu engu að síður halda áfram enda ekki allir sem komast fyrir í litla safninu á Eyrarbakka og ekki allir sem hafa tækifæri til að skjótast á staðinn til að taka þátt.

Nýjar fréttir