3.9 C
Selfoss

Skógasafn og árið 2020

Vinsælast

Árið sem er að líða hefur verið viðburðarríkt eins og önnur ár í starfsemi Skógasafns. Í upphafi ársins hefði enginn hefði getað ímyndað sér að þetta væri árið sem heimsbyggðin myndi glíma við heimsfaraldur kórónuveiru. Einnig hefði engan órað fyrir að sumarið yrði að mestu án erlendra ferðamanna og að Íslendingar yrðu svona duglegir að skoða landið sitt og söfn.

Nýjar leiðir í miðlun

Eftir að söfnum var gert að loka í vor tóku safnmenn sig saman og leituðu nýrra leiða til að miðla fróðleik til fólks. Það var gert með því að kynna starfsemina í gegnum vef- og samfélagsmiðla og söfn voru hvött til að færa landsmönnum „safnið í sófann“. Aldrei áður hefur Skógasafn verið jafn virkt á samfélagsmiðlum og nú en á árinu hófst nýr liður þar sem kynntur er gripur úr safnkosti safnsins vikulega. Í vor var einnig bryddað upp á þeirri nýjung að setja inn myndir af gripum með engum útskýringum og leyfa fólki að giska á hvað um var að ræða. Þessi nýi liður hefur vakið góð viðbrögð og honum verður haldið áfram samhliða umfjöllunum um gripi safnsins. Þá er verið að vinna að útfærslu á ýmsum miðlunarleiðum svo sem hljóðleiðsögn um hluta safnsins.

Ferðasumarið mikla

Eftir langan og erfiðan vetur var ekki annað hægt en að fyllast bjartsýni við tilhugsunina um sumarið. Fjölmargir Íslendingar lögðu leið sína á safnið og sumarið var betra en nokkur þorði að vona. Margir nýttu ferðagjöfina og boðið var upp á sérstakan fjölskyldumiða með ratleik fyrir börnin. Sigmundur Ernir Rúnarsson heimsótti Skógasafn og gerði því góð skil í þáttaröðinni ,,Söfnin á Íslandi“. Þá var Frímann Gunnarsson einnig með innslag um Skógasafn á leið sinni um landið. Sjaldan eða aldrei hafa jafn margir Íslendingar komið á safnið yfir sumartímann.

TF-FAR, flugvél Reynis Ragnarssonar

Snemma á árinu gaf Reynir Ragnarsson, fyrrum lögregluþjónn í Vík í Mýrdal flugvélina sína Aero Commander 100 frá árinu 1968. Ákveðið var í samráði við Reyni að koma henni fyrir í Samgöngusafninu enda hefur hún verið hluti af samgöngusögu svæðisins og margir farið í flugferð með Reyni. Vélin er tæpir sjö metrar á lengd með tíu metra vænghaf. Það var því ljóst að taka þurfti vængina af vélinni til að koma henni inn á safnið. Að auki smíðaði Reynir fallegan pall undir hana með ljósmyndum af eldgosum sem hann hafði tekið úr vélinni. Reynir kom ásamt vinnuflokki í sumar og inn komst flugvélin vængjalaus. Þá þurfti að setja vængina aftur á áður en henni var komið fyrir. Núna sómir flugvélin hans Reynis sig vel í Samgöngusafninu, stutt frá sýningu um flugbjörgunarsveitirnar. Núna eru tvær flugvélar til sýnis í Samgöngusafninu ,,Skaftið“ hans Ómars Ragnarssonar og vélin hans Reynis. Fyrir hönd safnsins þakka ég Reyni fyrir þessa góðu gjöf.

Fornleifauppgröftur við Arfabót á Mýrdalssandi

Áfram var haldið með fornleifarannsóknina í Arfabót í Álftaveri sem var miðaldabýli sunnarlega á Mýrdalssandi. Skógasafn hefur styrkt rannsóknina sem er undir stjórn Bjarna F. Einarssonar. Helga Jónsdóttur fornleifafræðingur og starfsmaður safnsins, vann einnig að uppgreftinum eins og undanfarin ár. Þetta sumar var lokið við uppgröft í eldhúsi, skála og fleiri rýmum. Þá var sandi mokað ofan af og frá rústunum sem umlykur svæðið. Skálinn hefur verið styttur á lokaskeiði búsetunnar og austurenda hans breytt í skemmu eða búr og við það hefur íveruhlutinn minnkað. Lítill klefi liggur vestur úr skálanum og er um einn fermetri. Þar hefur einhvers konar vinnsla átt sér stað, hugsanlega lýsisgerð. Allt rýmið snýr í austur-vestur og eru rúmir 11 metrar að lengd og rúmir 3 metrar að breidd. Nú hefur rannsóknin staðið yfir í fjögur ár og ljóst er að Arfabót var stórbýli. Bærinn fór líklega í eyði á 15. öld í kjölfar Kötlugosa eins og fleiri bæir á Mýrdalssandi og í Álftaveri.

Ný sýning um landpóstana

Seint á síðasta ári var Frímerkja- og póstsögusjóður lagður niður og fjármunum sjóðsins deilt niður á Landsamband íslenzkra frímerkjasafnara og þrjú söfn, Skógasafn, Þjóðminjasafn Íslands og Þjóðskjalasafn Íslands. Styrkveitingin var nýtt í margskonar starfsemi á söfnunum þremur í sambandi við varðveislu póstminja og fræðslu um frímerkja- og póstsögu. í Skógasafni var sett upp sýning sem ber heitið: „Landpóstarnir 1782-1930“. Sýningin var sett upp í samráði við Íslandspóst sem er samstarfsaðili Samgöngusafnsins. Sýningin fjallar um landpóstaembættið frá upphafi þess og lögð er áhersla á sunnlenska landpósta. Sýningin ætti að gefa fólki betri innsýn inn í þennan horfna heim og mikilvægi samgangna í þjóðfélaginu. Á fullveldisdaginn var haldin málstofa um póst- og frímerkjasögu þar sem þrjú fræðsluerindi voru flutt. Málstofan var samvinnuverkefni Skógasafns, Þjóðminjasafns Íslands og Þjóðskjalasafns Íslands og bar heitið: „Póstmenn koma víða við“.

Þrátt fyrir erfiða tíma á árinu létum við ekki deigan síga. Á vormánuðum, þegar söfnum var gert að loka, færðist menningarmiðlunin að mestu yfir á vef- og samfélagsmiða með ýmsun nýjungum. Sumarið, sem var gjarnan kallað „Ferðasumarið mikla“, varð til þess að landsmenn ferðuðust innanlands og margir stoppuðu við í Skógasafni. Að svo stöddu er safnið opið og við horfum björtum augum til betri tíðar með hækkandi sól. Með þessum lokaorðum óska ég Sunnlendingum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs.

 

Andri Guðmundsson

forstöðumaður Skógasafns

Nýjar fréttir