3.9 C
Selfoss

Kæru sunnlendingar

Vinsælast

Á þessum tímamótum er alltaf gott að staldra við, líka á tímum Covid. Við þurfum að gefa okkur tíma í að ígrunda stöðu okkar og velta fyrir okkur hvert við erum að fara. Minn tími fer að miklu leiti í vinnuna eins og hjá okkur flestum. En mikilvægi þess að kúpla sig út hefur kannski aldrei verið mikilvægari. Að finna leið til að gera eitthvað allt annað ekki síst þegar sundlaugar, íþróttamannvirki, leikhús, bíó og önnur afþreying er lokuð. Þá skipta litlu atriðin sem hægt er að framkvæma og við ættum að huga að, ganga tröppurnar, lenga daglegar leiðir til og frá vinnu, taka aukahring í hverfinu og jafnvel gera gömlu góðu leikfimiæfingarnar á stofugólfinu. Kveikja svo á kerti og hlusta á góða tónlist, lesa eitthvað af þeim fjölmörgu góðu bókum sem koma út fyrir þessi eða fyrri jól.

Mér finnst afar gott að fara út í náttúruna og leyfa hugsuninni að fljúga, sleppa henni lausri og svo þegar tíminn er kominn, að taka við þeirri niðurstöðu sem kemur. Hvaða leið sem hver og einn fer er í sjálfu sér ekki aðalatriðið heldur að einhver leiðin sé nýtt í anda hvers og eins.

Ég hef stundum velt fyrir mér hvernig verkefnin og tíminn undanfarna mánuði hefði verið ef ég hefði ekki vitað að von væri á jólatímanum með tilheyrandi upprofi á tilverunni, gæðastundum með mínu nánasta fólki. Þessi tímamót eru mikilvæg þegar upphaf nýs árs er á næsta leiti. Einnig eru vetrarsólstöður vísbending um hækkandi sól og birtu. Og munum að það gerist hratt, strax í byrjun febrúar sjáum við mun á birtunni um kl. 8 á morgnana 😊

Að undanförnu höfum við heyrt af því að við þurfum að velja okkur félagsskap næstu vikur, það er sérstætt. Í ljósi aðstæðna er þetta það sem búast mátti við. Það var rætt í morgunútvarpinu í vikunni að nú mætti skilja útundan. Ég er sannfærð um að með samtalinu nái hver og einn lendingu um hvernig skynsamlegt er að verja tímanum á næstu vikum án þess að einhver móðgist því það er vonandi skilningur á ástandinu.

Ég hef starfað í framhaldsskólum alla mína fullorðins starfstíð, eða í 34 ár. Það er bara ein skýring á þeirri endingu, ungmennin og samstarfsfélagarnir sem ég hef fengið að vinna með allan tímann. Nemendurnir sem hafa komið og farið á þessum árum skipta þúsundum og hafa aldeilis kennt mér á lífið. Og ég get sagt ykkur að þau verða bara betri og betri. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni, þau munu sjá vel um hana. Skólakerfið er líka alltaf að batna því það þróast í takti við samfélagið og þróun þess eins og vera ber. Það hefur berlega komið í ljós á þessu hausti þegar skólahaldið hefur að miklu leiti verið rafrænt. Það hafa allir lagst á eitt um að láta hlutina ganga. Svo er það annað mál hvort þetta fyrirkomulag henti unga fólkinu okkar sem þarf mjög á „hinni duldu námskrá“ að halda. Að læra „allt hitt“ sem ekki stendur í bókunum eða námsskránni en er ekki minna virði þegar upp er staðið. Þar skipar samveran og samskiptin miklu enda einn af þeim hæfileikum sem allir þurfa að þjálfa og skipta mjög miklu máli í lífinu.

Kæru vinir ég vil þakka ykkur öllum fyrir þann stuðning sem ég skynja frá ykkur og skilninginn á mikilvægi góðs framhaldsskóla á Suðurlandi sem við í FSu erum alltaf að reyna að verða við. Fjölbrautaskóli Suðurlands er einn af hornsteinum samfélagsins og hluti þeirra gæða að búa á landssvæðinu.

Gleðilega aðventu og gæruríkt nýtt ár 2021.

Olga Lísa Garðarsdóttir

Skólameistari FSu

 

Nýjar fréttir