-14.3 C
Selfoss

Árborg bætir sig í Framfaravoginni milli ára

Vinsælast

Búið er að gefa út niðustöður á verkefninu Framfaravog sveitarfélaganna. Þar kemur fram að Sveitarfélagið Árborg sé í flestum þáttum að bæta sig milli ára þegar horft er til grunnþátta velferðar í samfélaginu.

Framfaravog sveitarfélaga er verkefni sem Sveitarfélagið Árborg tekur þátt í ásamt Kópavogsbæ og Reykjanesbæ en vogin er mælitæki með 55 vísum sem er ætlað að leggja mat á ákveðna grunnþætti í samfélaginu líkt og:

  • Hvernig grunnþörfum íbúa er mætt
  • Hvort verið sé að stuðla að og viðhalda lífsgæðum íbúa
  • Hvort allir hafi tækifæri til að bæta líf sitt

Markmiðið er að draga fram stöðu félagslegra framfara í samfélaginu með því að sjá hvar sé verið að gera vel og hvar sé hægt að gera betur. Notast er við sérstakan SPI stuðul sem er alþjóðlegur mælikvarði sem er lagður fram á bilinu 0 – 100. Niðurstöðurnar eru síðan samanburðarhæfar milli sveitarfélaga á Íslandi sem taka þátt í verkefninu. Framfaravogin getur því nýst sveitarfélögum til að gera alla framfararvinnu markvissari til framtíðar.

Sveitarfélagið vinnur áfram úr niðurstöðunum

Niðurstöðurnar sýna árin 2015-2019 og mun Sveitarfélagið Árborg vinna úr niðurstöðunum og setja upp aðgerðir til að bæta enn frekar lífsgæði íbúa í sveitarfélaginu. Þessi úrvinnsla mun fara fram í fagnefndum sveitarfélagsins, meðal starfsmanna, starfshópum og í gegnum rafræna vettvanginn „Betri Árborg“ þar sem allir íbúar fá tækifæri til að koma með ábendingar og tillögur að aðgerðum.

Það er markmið sveitarfélagsins að Framfaravogin geti nýst sem öflugt mælitæki sem og verkfæri fyrir starfsmenn til að gera vinnu og áætlanagerð markvissari til framfara í samfélaginu. Heildarskýrsluna má nálgast á vef Árborgar, arborg.is.

 

Nýjar fréttir