0.6 C
Selfoss

Jólakveðja

Vinsælast

Nú líður senn að lokum ársins 2020, ársins sem fór svo vel af stað, hvað varðar okkur sem stöndum í framlínu við stjórnun Sveitarfélagsins Árborgar.  Efnahagslífið á fleygi ferð, ferðamenn út um allt að skapa okkur tekjur, íbúafjölgun aldrei meiri, framkvæmdir út um allt til að skapa okkur betri lífsgæði, en svo kom Covid-19, kórónuveiran barst til okkar eins og allrar heimsbyggðarinnar og núna er þetta árið sem við viljum gleyma sem fyrst.  Landið nánast lokaðist, ferðamennirnir komu ekki lengur, ferðaþjónustufyrirtæki drógu saman seglin, þjónustufyrirtæki fengu mörg sama skellinn, uppsagnir, lokunarstyrkir og orðið „fordæmalausir tímar“ heyrðist daginn út og inn.  Fyrir marga algjört svartnætti og framtíðin algjörlega óljós.  Þrátt fyrir margvíslegar aðgerðir hins opinbera, ríkisvaldsins, sveitarfélaga og annarra, þá dugði það ekki til fyrir alla.  Hvernig átti að bregðast við þessu?

Mannauðurinn

Sveitarfélagið Árborg ákvað strax að bregðast við með því að draga ekki úr framkvæmdum, fara ekki í uppsagnir eða aðrar sársaukafullar aðgerðir þrátt fyrir að við blasti tekjusamdráttur í formi lægra útsvars og ýmissa annarra tekna, vegna samdráttar í samfélaginu.  Nauðsynlegar framkvæmdir hafa haldið áfram, s.s. bygging nýs leikskóla, undirbúningur að byggingu nýs grunnskóla, þátttaka í uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis, gatnagerð, lóðaframkvæmdir o.s.frv.  Einnig þurfti að bregðast við þrengingum vegna smita, sóttkvíar, einangrunar o.fl. og virkja alla starfsmenn Árborgar til góðra verka við að skipuleggja alla starfsemi uppá nýtt, s.s. í leikskólum og grunnskólum.  Allir starfsmenn sveitarfélagsins hafa staðið sig með eindæmum frábærlega og verður þeim seint fullþakkað fyrir sín frábæru störf og lausnamiðaðar aðgerðir í þessu ástandi.

Nýtt ár

En það styttist í árið 2021 sem við horfum til með mikilli bjartsýni og að „veiruskrattinn“ verði hrakinn í burtu með samhentu átaki og bólusetningu landsmanna.  Það ríkir ákveðin bjartsýni og þrá til betra tíma.  Þá verður þetta „fyrir og eftir“ Covid, svipað og „fyrir og eftir“ efnahagshrun sem allir muna eftir, og hugsa til með hryllings.  En það mun taka tíma að komast upp úr þessari efnahagslægð sem fylgdi veirunni og því eru fjárhagsáætlanir Árborgar þannig að tap verður á rekstri þess næstu 3-4 árin meðan við komum okkur upp úr þessu ástandi. Meðal annars vegna þess að við viljum ekki skella í lás, draga úr framkvæmdum, hækka álögur og grípa til uppsagna og skerða þjónustu.  Við teljum að með framtíðarsýn okkar, sem stjórnum Sveitarfélaginu Árborg, séum við að skapa gott og farsælt samfélag fyrir alla sem þar búa og með okkar áætlunum mun birta upp um síðir, fjármál leita jafnvægis og sama á við um álögur á íbúa.

Ég vil óska öllum íbúum Sveitarfélagsins Árborgar, Sunnlendingum og landsmönnum öllum, gleðilegra jóla og ósk um farsælt nýtt ár. Hvet alla til að fara inn í nýtt ár, full bjartsýni á betri tíma með blóm í haga.

 

Helgi Sigurður Haraldsson bæjarfulltrúi Framsóknar og óháðra í Svf. Árborg.

 

 

Nýjar fréttir