-12.7 C
Selfoss

Óður til móður minnar!

Vinsælast

Fjölskyldan frá Brúnastöðum kom saman í Þingborg í sumar og minntist þess að hundrað ár eru liðin frá fæðingu Ingveldar Ástgeirsdóttur. Þar flutti Guðni Ágústs-son ræðu um líf og starf foreldra sinna þeirra Ingveldar og  Ágústs Þor-valdssonar á Brúnastöðum. Ræðan er talsvert stytt.

Ingveldur Ástgeirsdóttir móðir okkar, tengdamóðir amma og langamma ykkar var oft kölluð huldukonan á Brúnastöðum. Hún kom eins og frelsandi drottning að Brúnastöðum, Ágúst föður okkar vantaði vinnukonu. Jóhanna systir hans veiktist og hver var það þá önnur en stúlkan sem hafði verið vinnukona í Ölvis-holti árið áður, Inga eins og hún var jafnan kölluð af frændfólki og vinum, hún  kom ekki með háreysti í bæinn á Brúnastöðum eða í nýju sveitina sína. Hér í sveit gengu þau Ágúst og Ingveldur undir þeim hlýlegu nöfnum Gústi og Inga á Brúnastöðum.

Mamma var í aðra röndina feimin og hafði sig lítt í frammi, þótt hún byggi yfir sterkri skaphöfn og hefði skoðanir á mönnum og málefnum. Í upphafi  áður en ég rek feril hennar og lífshlaup þeirra skulum við vitna til nágranna mömmu sem kvaddi hana með þessum orðum.

Ólafur Árnason í Oddgeirshólum lifði og starfaði í nágrenni hennar í hálfa öld og þekkti vel heimilishagi á Brúnastöðum. Hann segir: „ Öllum sem komu að Brúnastöðum voru veittar höfðinglegar móttökur og var þar ekki farið í mann-greinarálit, enda allt slíkt afar fjarlægt Ingveldi og þeim hjónum báðum. Reglu-semi og þrifnaður einkenndu húsmóðurstörf Ingveldar framar öðru. Hvergi sást vanhirða eða lök umgengni þar sem hún kom að verki. Mikið líkamsþrek og meðfædd vinnusemi gerðu henni kleift, ásamt ómældri vinnugleði, að skila óvenju miklu ævistarfi.  Öll óhófsmælgi var fjarri Ingveldi og ekki gerði hún sér heldur alla viðhlæjendur að vinum og ekki gekk hún að baki neinum.“

Ingveldur Ástgeirsdóttir, var ein af þessum hljóðu konum í sveit, húsmæðrum sem unnu sitt verk í hljóði og unnu á við þrjá vöknuðu fyrstar sofnuðu seinastar á kvöldin. Notuðu hverja ferð til að taka til var alltaf að, þótt mörgum þætti hún aldrei fara óðslega að neinu og hækkaði ekki róminn,  þá bjó hún yfir einhverju jafnaðargeði sem var yfirnáttúrulegt.          Í hógværð sinni átti hún fallegasta brosið á hverri mynd og var eins og stór-stjarna. Nágrannar hennar og vinir vissu líka að hún átti skæran hlátur og var skemmtilegust allra á góðri stund ekki síst í litlum hópi og meðal frændfólks og vina.

Halldór Laxnes segir  frá því í bók sinni Túninu heima:  Að eitt sinn var hann óvænt beðinn að minnast móður sinnar:   Halldór segir orðrétt;

„Mér var sagt að fyrst hefði ég horft lengi þegjandi á myndina í sæti mínu og loks þegar ég stóð upp hafi ég ekki sagt annað en þetta: Í rauninni þekkti ég aldrei þessa konu. Hún var huldukona. En mér þótti vænna um hana en aðrar konur.“

Og þannig er það með okkur þegar við hugsum til móður okkar svo ég tali ekki um marga samtíðamenn hennar. Hún var hin hljóða húsmóðir sem allt hafði í röð og reglu, þegar bóndinn og félagsmálamaðurinn Ágúst fékk gesti birtist hún og reiddi fram glæsilegt kaffiborð, sagði fátt heilsaði, en svaraði væri á hana yrt.

Mamma var afburðanemandi í barnaskóla vel læs reiknandi og minnið magnað sem einkenndi hana alla tíð. Mundi fæðingardaga og fæðingarár fólks var sér-fræðingur í að rekja ættir og skyldleika fólks. Hún hlaut hæstu einkunn úr barna-skóla af sínum jafnöldrum og fékk tíu í lestri og tíu í reikningi. Arndís Þorsteinsdóttir amma var ljósmóðir í Ásahreppi og síðar einnig í Djúpár-hreppi. Hún tók einnig á móti flestum af sínum barnabörnum og okkur fimmtán elstu systkinunum á Brúnastöðum. En það var Jóhann, sá yngsti sem fæddist á sjúkrahúsi.

Mamma fór strax að vinna á búi foreldra sinna eins og gerðist þá og þótti strax muna um hana fljót að mjólka og kappsöm að hverju sem hún gekk. Hún fór í vist eins og það var kallað þá á bæi í sveitinni, þegar hún hafði aldur til. Oft minntist hún þess að hafa farið eina vetrarvertíð til Grindavíkur og unnið í fiski.

Það mun hafa verið um það leyti og hún varð tvítug að hún fór vinnukona að Ölvisholti í Flóa til Guðrúnar Ögmundsdóttur og Runólfs Guðmundssonar. Oft var það nefnt við hana að á Brúnastöðum næsta bæ væri ungur og myndarlegur piparsveinn nokkurs konar prins sveitar sinnar,  Ágúst Þorvaldsson sem þá var kominn á fertugsaldur. Arndís amma mun hafa sagt við dóttur sína er hann ekki myndar-legur ungi maðurinn á Brúnastöðum? En á milli Ölvisholts og Brúna-staða var Véla- eða aðalskurður Flóaáveitunnar óbrúaður nema við Flóðgáttina á Brúna-staðaflötum en það var úrleiðis. Kannski hafa þau hist við skurðinn mamma og pabbi, setið á sitt hvorum bakkanum, talað saman og horft á hvort annað.

Ágúst var fóstursonur aldraðra hjóna á Brúnastöðum Guðlaugar Sæfúsdóttur og Ketils Arnoddssonar

Nú gerðist það 1941 að Jóhanna á Brúnastöðum verður óvinnufær um skeið og þá er leitað til vinnukonunnar sem var í Ölvisholti og mamma ræðst til þeirra að Brúnastöðum. Nú veit ég ekki hvort fiskur hefur legið undir steini hjá Jóu til að rýma eldhúsið fyrir hinni rómuðu stúlku sem Ölvisholtshjónin dáðu alla tíð og hrósuðu í hástert, með von um að piparmennsku bróður síns lyki?

En fyrsta nótt mömmu verður heimilisfólkinu á Brúnastöðum eftirminnileg því Jó-hönnu dreymir draum, og segir frá honum í morgunkaffinu. Hana dreymir þessa nótt að fallegur sparidúkur væri lagður á besta borðið í baðstofunni og yfir hann lagðar sextán blómfagrar rósir. Hver segir svo að ekki sé mark að draumum? Á næstu rúmlega tuttugu árum eignast þau foreldrar okkar sextán börn eins og frægt er.

Ásdís fæddist 1942.  Þorvaldur 1943, Ketill Guðlaugur 1945, Gísli 1946 og Geir 1947, Hjálmar 1948 og Guðni 1949, Auður 1950, Valdimar 1951, Bragi 1952, Guðrún 1954, Tryggvi 1955.

Börnin eru orðin tólf í gamla bænum. En heimilisfólkið eru 16 manneskjur í 60-70 fermetra stórum bæ, svona einni stofu að stærð í stóru húsunum núna. Það er þröngt um manninn sofið í þremur herbergjum hjónin eru Norðrí sem kallað var innaf baðstofunni, með kornabörnin hjá sér. Systkinin verða að gera sér að góðu að skipta rúmi sofa tvö og tvö saman.

Nýtt íbúðarhús er tekið í notkun á Brúnastöðum vorið 1956 sem er mikil breyt-ing á högum fjölskyldunnar, það sama vor er pabbi kosinn alþingismaður og býr við miklar fjarvistir frá sínu stóra heimili næstu 18 árin. Þorsteinn fæðist fyrstur 1956 í nýja húsinu svo koma Hrafnhildur, Sverrir og Jóhann yngstur.

Nú getur enginn gert sér í hugarlund aðstæður þessarar stóru fjölskyldu raf-magn kemur að Brúnastöðum haustið 1954. Aðstæður með þvott og hreinlæti á barnaskaranum og verkefni móður minnar sem verður að skola þvottinn í kaldri keldunni eða jökulkaldri Hvítá. Börnin eru böðuð í bala. Ljós komu frá vindmyllu og útvarpið var með battaríum. Eldavélin var kolaeldavél og vatn hitað á hlóð-um, kaldavatnið sótt í brunn, halað upp í fötum. Klósettið var kamar út við fjós, koppar voru undir rúmum. Mamma saumaði og sneið í föt á kvöldin og stagaði í sokka og bætur á buxur drengjanna. Strákarnir áttu matrósaföt og stelpurnar kjóla til spari, börnin voru fín á öllum samkomum.

Allt til ársins 1956 er ekki bíll eða traktor til á Brúnastöðum allt er unnið með hestum og höndunum.  Ógleymanleg sýn var það mönnum sem riðu hjá garði að sjá allan krakkaskarann að snúa heyi í túninu heima, í röð eftir stærð og hrífurnar smíðaðar eftir stærð þeirra.

Margir óttuðust haustið 1954 að búskap foreldra okkar lyki þegar heimahlað-an brann til kaldra kola í ágústlok. En sveitungar og góðir vinir endurbyggðu hana  á tveimur dögum og fylltu hana af heyjum, svona var kærleikurinn og vinátta þess tíma. Samtrygging fólksins var sjálfsprottin.

Þingmennska föður okkar var áskorun, en auðvitað mjög erfið ákvörðun fyrir mömmu. Hún og elstu börnin urðu að taka við verkefnunum heima yfir vetur-inn. Bjössi og Jóa föðursystkini okkar voru heimilinu líka mikilvæg á þessum tíma og frændfólk ekki síst mömmu hjálpaði mikið til. Ekki var það í þá daga talið til mikilla tekna þingmennskan því þegar það spurðist út að menn vildu Ágúst á þing, brá Gísla á Stóru-Reykjum og setti hljóðan. Þá var spurt treystirðu ekki Ágústi.“  Jú að sjálfsögðu sagði Gísli sem var nokkurskonar guðfaðir hans í félagsmálum; „Ég hef bara áhyggjur að hann verði gjaldþrota með allan þennan barnaskara.“ Og þegar pabbi hafði sigrað þjóðþekktan mann Bjarna Bjarnason skólasjóra á Laugarvatni í prófkjöri, kom Lýður í Litlu-Sandvík heim og sagði þær fréttir að Jörundur Brynj-ólfsson væri hættur þingmennsku og Bjarni hefði kol-fallið fyrir ungum manni frá Brúnastöðum sem væri bara þekktur fyrir barneign-ir. En svo komu gleði-stundirnar hann varð vinsæll og mikils virtur, héraðshöfð-ingi  og mamma fór að fara með honum í þingveislur og ferðalög.  Margar skemmisögur væri hægt að segja en læt tvær fylgja; Einu sinni sem oftar var kvenfélagi Hraungerðishrepps boðið í nærsveitir, þar blönduðu konurnar geði og margt bar á góma, ein heima-kvennanna hallaði sér að mömmu og spurði; „Er það satt að þingmannsfrúin hafi verið að eignast sextánda barnið?“  Mamma svaraði af hægð; „Ég get staðfest það því ég er sú sem þú spyrð um.“ Ekkert segir af viðbrögðunum, en móðir okkar bar ekki útlit hinnar vinnulúnu húsmóður eða að hún hefði alið barn nánast á hverju ári. Glæsileiki yfirgnæfði alla þreytu. Öðru sinni voru foreldrar okkar í þing-veislu á Hótel Borg og voru að tala við hjónin Bernharð Stefánsson og Hrefnu konu hans. Hrefna spyr mömmu um hvað þau Ágúst eigi mörg börn? Mamma segir henni það að þau séu orðin þrettán. Hrefna hrópar heyrðirðu þetta Benni, svo slær hún í öxl pabba og segir Benni, Benni hér er sko karl með græjurnar í lagi.                                      Páll Lýðsson í Litlu- Sandvík sagði þetta um móður okkar. „Ingveldur húsfreyja á Brúnastöðum, sem sumir  halda að hafi veið huldukona en var það alls ekki. Hún var allsstaðar nálæg í búrekstrinum, vaknaði fyrst allra, gekk síðust  til náða. Þetta vissu allir sem til þekktu og henni var nákvæmlega sama hvernig þeir hugsuðu, sem ekki vissu að hún varði sitt varp. Ingveldur var víst seintekin. Á mannamótum lét hún bónda sinn tala, stóð hjá og svaraði þegar yrt var á hana. En við stjórn heimilisins síns og eins við móttöku gesta var hún stórkost-leg.“

Móðir okkar flutti á Selfoss eftir lát föður okkar, átti myndarlegt heimili á Skóla-völlunum, tók þar á móti börnum og barnabörnum sínum. Þótt hún bæri aldurinn vel og væri hraust Þá nálguðust skapadægur.  Hún hafði oft orð á því að ekki vildi hún verða gömul og helst ekki eldri en sjötug.  Ég minnist þess að vorið 1989 þá var mamma 69 ára gömul, en þá borðaði ég hádegismat hjá Hrafnhildi systur okkar og Oddi á Stöðulfelli og mamma var þar gestur þeirra.

Hrafnhildur tók að segja frá undarlegum draumi sínum. Í draumnum var barið að dyrum á Stöðulfelli og hún fer til dyra, þá stendur pabbi þar, glaður mjög klæddur í frakkann sinn og með sparihattinn á höfðinu en við hlið hans standur kona nokkuð ógreinileg í draumnum sem Hrafnhildur  ber ekki kennsl á. Við Hrafnhildur ræðum drauminn fram og til baka en mamma leggur lítið til. Það hvarlaði að mér að þetta væri feigðardraumur. Tveimur mánuðum síðar á afmælisdegi Ásdísar 6. ágúst er mamma enn kominn til Hrafnhildar, og gætir nú Bryndísar litlu meðan þau Oddur og Hrafnhildur eru úti við í heyskap. Hrafnhild-ur fær hugboð um að líta í bæinn þar eru örlögin að gerast mamma hefur lagt barnið á gólfið og er sjálf að skilja við. Draumurinn var þá hugboð um að Ágúst myndi sækja brúði sína þangað. Nú þegar við komum hér saman í dag eftir að 78 ár eru liðin frá brúðkaupi þeirra, hundrað ár frá fæðingu mömmu, ættboginn er orðinn stór börnin urðu 16, barnabörnin 49 og barnabarnabörnin 82.  Og þegar eru afkomendur  í fjórða lið orðnir 6. talsins, eða 153 afkomendur. Kynjaskiptingin er ójöfn 59 stúlkur og 94 drengir.

Blessuð sé minning Ingveldar Ástgeirsdóttur og Ágústs Þorvaldssonar.

 

 

 

Nýjar fréttir