-5.5 C
Selfoss

Jólatrén sótt í þjóðskógana

Vinsælast

Trausti Jóhannsson, skógarvörður á Suðurlandi, segir að tíðarfarið í haust hafi verið gott þar um slóðir, október með eindæmum góður og nóvember lengst af líka. Öll torgtré höfðu verið sótt í byrjun desember og komið til kaupenda, sem og öll heimilistré sem pöntuð höfðu verið. Þeim var dreift til smásala fyrstu dagana í mánuðinum. Langmest er tekið af stafafuru en einnig smáræði af rauðgreni og blágreni. Tvær stærðir segir Trausti vinsælastar, 100-150 cm og 151-200 cm. Alls áætlar Trausti að heimilistrén frá Skógræktinni á Suðurlandi verði milli 700 og 800 talsins þetta árið.

Allar tegundir líta vel út þetta árið, segir Trausti. Stafafuran sé einkar falleg í ár og ekki hefur borið á neinni óværu í grenitegundunum. Byko er stærsti kaupandi trjánna af Suðurlandi og þangað fara tæplega 600 tré. Farfuglar í Laugardal eru líka að sækja í sig veðrið í jólatrjásölunni og Garðlist hefur sömuleiðis tekið þó nokkuð mörg tré líkt og fyrri ár.

Torgtré alls 40 talsins úr sunnlenskum þjóðskógum

Torgtré tekin úr sunnlensku þjóðskógunum urðu um 40 talsins að þessu sinni, flest tekin á Tumastöðum en þau stærstu í Þjórsárdal. Hæsta tréð var 10,5 metrar. Eins og við höfum sagt frá hér á skógur.is stóð starfsfólk Skógræktarinnar á Suðurlandi fyrir lofsverðu framtaki í ár. Skógræktin á Suðurlandi í samstarfi við Litla-Hraun hefur framleitt jólagreinar og könglakassa sem seldir eru í öllum betri verslunum. Byko hefur verið stærsti kúnninn í ár en Farfuglar, Garðheimar og fleiri hafa einnig tekið greinarnar og könglana í sölu. Þá nefnir Trausti að svokölluð tröpputré séu alltaf vinsæl, tré sem gott er að stilla upp við útidyrnar heima eða þar sem henta þykir við heimili og vinnustaði.

Aðspurður um áhrif veirufaraldursins segist Trausti ekki finna mikinn mun. Vissulega séu ekki mannfagnaðir eins og venjan er á þessum árstíma. Hins vegar hafi fólk verið duglegt að heimsækja skógana og eflaust hafi COVID-19 eitthvað um það að segja. Fólk leitar í skjólið, náttúruna, útsýnið og kraftinn í skóginum. Trausti finnur fyrir miklum áhuga á innlendu trjánum og öðrum afurðum úr skógunum. Fólk sé jákvætt og þá hafi jólagreina- og könglasalan vakið jákvæða athygli.

Ekki í boði að koma og fella tré í Haukadalsskógi í ár

Ekki er í boði að koma í Haukadalsskóg og fella eigið tré eins og venjan hefur verið. Það er „út af dottlu“ eins og nú er tekið til orða. Trausti segir þó að reynt sé eftir megni að uppfylla óskir viðskiptavina sem hafa í ár og jafnvel áratugi komið í skóginn til að sækja sér tré. Hann segir að áhugi almennings og atvinnulífsins á íslenskri skógrækt sé alltaf að aukast, fólk sæki mikið í skógana og meiri meðvitund sé um að nota innlent efni. „Mikil eftirspurn er eftir arinviði og smíðaviði úr skógunum okkar,“ segir Trausti að lokum.

 

Nýjar fréttir