1.7 C
Selfoss

Bók um Lúðvík Norðdal læknir á Eyrarbakka og Selfossi

Vinsælast

Út er komin bókin Lúðvík Norðdal Davíðsson (1895-1955) eftir Lýð Pálsson sagnfræðing.

Lúðvík D. Norðdal fæddist í Eyjarkoti á Skagaströnd í Austur-Húnavatnssýslu 6. júlí 1895 sonur fátækra hjóna.  Hann braust til mennta og lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1922. Hann kvæntist Ástu Jónsdóttur og eignuðust þau þrjú börn. Lúðvík varð læknir á Eyrarbakka 1922 en á Selfossi 1945 og út starfsævina. Hann var læknir á breytingatímum, starfskilyrði hans voru frumstæð í fyrstu og varð stundum að gera vandasamar skurðaðgerðir í heimahúsum. Ferðamátinn var í fyrstu hesturinn en síðan komu bifreiðar til sögunnar. Lúðvík naut trausts meðal skjólstæðinga sinna og sýndi þrautseigju og dugnað við erfið skilyrði. Hann var þátttakandi í sunnlensku mannlífi af lífi og sál.  Lúðvík lét af störfum sökum heilsubrests árið 1954 og lést 27. janúar 1955 í Reykjavík aðeins 59 ára að aldri.

Í bókinni er greint frá helstu æviatriðum í lífi Lúðvíks Norðdal læknis á Eyrarbakka og Selfossi. Aflað hefur verið heimilda um Lúðvík og tekin viðtöl við ýmsa sem mundu Lúðvík að störfum. Fjallað er um æsku Lúðvíks, skólagöngu, fjölskyldu, læknisstörf, félagsmálastörf og stjórnmálaþátttöku. Sérstakur kafli er um kveðskap hans.

Höfundur bókarinnar er Lýður Pálsson (f. 1966) safnstjóri Byggðasafns Árnesinga á Eyrarbakka. Lýður lauk BA-prófi í sagnfræði árið 1990 og MA-prófi í hagnýtri menningarmiðlun árið 2014. Ásamt störfum við safnið hefur Lýður skrifað greinar og bækur um ýmsa þætti úr sögu héraðsins.

Bókin er sett upp af Sylvíu Kristjánsdóttur grafískum hönnuði. Útgefendur  eru nokkrir afkomendur Lúðvíks Norðdal. Bókin fæst hjá Bókakaffinu á Selfossi og í Ármúla í Reykjavík. Einnig hjá höfundi.

 

Nýjar fréttir