-2.2 C
Selfoss

Krakkar styrkja Sjóðinn góða um 50 þúsund

Vinsælast

Sjóðnum góða barst heilmikill liðsstyrkur frá nemendum í 9. bekk Barnaskólans á Stokkseyri og Eyrarbakka. Nemendurnir ákváðu að í stað þess að halda jólapakkaleik yrði ágóðinn látinn renna óskiptur til Sjóðsins góða. Sjóðurinn góði er samstarfsverkefni sóknarkirkna í Árnessýslu, Rauða krossins, félagsþjónustu Árborgar og félagsþjónustu Árnesþings. Sjóðurinn styður við þá sem hafa minna á milli handanna um jól hver.

„Það var foreldri sem kom með þessa hugmynd til umsjónakennara. Kennarinn okkar í 9. B,  Ragna Berg, bar hugmyndina upp og okkur fannst hún mjög góð. Við ákváðum að láta fé af hendi rakna og samtals varð þetta um 50 þúsund krónur, þegar allt var talið,“ segja krakkarnir í skriflegu svari til Dagskrárinnar. Þegar þau eru innt eftir því hvers vegna það skipti máli að styðja verkefni eins og Sjóðinn góða segja þau: Það eru margir sem hafa lítið á milli handanna og sérstaklega á þessum tímum.

Hvöttu aðra til að gera slíkt hið sama

Nemendur í 10. B heyrðu af þessu og ákváðu að vera með. Krakkarnir segja jafnframt að það sé góð tilfinning að hjálpa öðrum. Það séu margir sem eru fátækir, eigi ekki pening og þá sérstaklega um jólin. Þetta kemur í góðar þarfir þar sem ljóst er að Sjóðurinn góði þarf að styðja við fjölmarga þetta árið. Forsvarsmenn Sjóðsins þakka nemendum í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri fyrir framlagið.

 

 

Nýjar fréttir