Fjárhagsáætlanir vegna ársins 2021 eru gerðar í ljósi þeirrar miklu óvissu sem nú ríkir varðandi rekstrarlegt umhverfi landsins og reyndar heimsbyggðarinnar allrar. Kórónuveirufaraldurinn hefur lamað stóran hluta atvinnulífs um víða veröld og hafa sveitarfélög hér á landi ekki farið varhluta af því. Forsendur sem gefnar voru við fjárhagsáætlunargerð ársins 2020 hafa flestar brostið og fjárhagsleg óvissa næstu missera er mikil. Miklar vonir eru bundnar við að bóluefni gjörbreyti stöðunni og er fyllsta ástæða til að telja að svo geti orðið. Þar til það verður að veruleika er samt rétt að gera ráð fyrir því að kórónuveirufaraldurinn muni mikil áhrif hér á landi og þar með einnig á fjárhag einstakra sveitarfélaga.
Hagnaður af rekstri 2021
Í Hveragerði er atvinnuleysi undir landsmeðaltali og útsvarstekjur bæjarfélagsins hafa skilað sér vel miðað við fjárhagsáætlun 2020. Aftur á móti hafa boðaðar skerðingar á framlögum Jöfnunarsjóðs, sem nemur tugum milljóna mikil áhrif á reksturinn og við því þarf að bregðast. Við gerð fjárhagsáætlunar er fyllstu hagræðingar gætt án þess þó að komi til þjónustuskerðingar eða uppsagna starfsfólks.
Heildartekjur Hveragerðisbæjar (aðalsjóðs, A- og B- hluta) munu verða kr. 3.313 m.kr..
Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðu nema um 3.126 m.kr..
Niðurstaða samstæðu án fjármagnsliða er því jákvæð um 187 milljónir sem er 5,6% af tekjum.
EBITDA Hveragerðisbæjar er 301 m.kr..
Fjármagnsliðir eru áætlaðir 185 m.kr.
Rekstrarniðurstaða samstæðu er jákvæð um 1,5 m.kr..
Ekki mikill afgangur en niðurstaðan er þó jákvæð sem er betra en bjartsýnustu bæjarfulltrúar þorðu að vona. Ef eingöngu er litið til A-hlutans þá er reksturinn jákvæður um rúmlega 8 m.kr.
Fasteignagjöldum stillt í hóf
Íbúafjölgun í Hveragerði er stöðug og eru íbúar nú 2.781. Hefur íbúum fjölgað um 82 eða um 2,7% á árinu. Uppbygging Kambalands er mun hraðari en búist var við og augljóst að kaup Hveragerðisbæjar á því landi voru skynsamleg ráðstöfun. Víða er einnig verið að byggja í eldri bæjarhlutum en möguleikar til þéttingar byggðar í Hveragerði eru miklir.
Fasteignaverð hefur hækkað skarpt í Hveragerði að undanförnu sem óhjákvæmilega hefur leitt til þess að fasteignamat í bæjarfélaginu hefur hækkað mörg undanfarin ár. Bæjarstjórn hefur árlega séð til þess að fasteignagjöld hækki ekki umfram verðlagsþróun að meðaltali. Nú er gert enn betur og séð til þess að fasteignagjöld hækki að meðaltali ekki umfram 2,5% meðan að verðlagsþróun undangengna 12 mánuði er 3,5% . Er því um raunlækkun fasteignagjalda í bæjarfélaginu að ræða. Þannig er séð til þess að íbúar Hveragerðisbæjar þurfa ekki að greiða gjöld í samræmi við sífellda verðmætaaukningu eigna þeirra.
Fjárfest í mikilvægum innviðum
Gert er ráð fyrir að fjárfest verði fyrir 706 milljónir á árinu 2021 en á móti fjárfestingu koma tekjur meðal annars af gatnagerðargjöldum þannig að nettó fjárfesting mun nema um 400 m.kr. Stærsta einstaka framkvæmd ársins er viðbygging við Grunnskólann í Hveragerði sem hýsa mun sex nýjar kennslustofur. Áætluð lok þeirrar framkvæmdar eru í ágúst 2021.
Gert er ráð fyrir að uppbygging haldi áfram í Kambalandi. Stefnt er að úthlutun lóða fyrir 20 einbýlishús á árinu. Bjarg íbúðafélag hyggur á byggingu 10 leiguíbúða sem leigðar verða út án hagnaðarssjónarmiða og auk þess munu einkaaðilar hefjast handa við byggingu fjölbýlishúsa í hverfinu. Gert er ráð fyrir framhaldi á endurbótum á sundlaugarhúsinu í Laugaskarði og að viðhaldi búningsklefa ljúki næsta vor.
Á komandi ári standa vonir til að framkvæmdir hefjist við nýtt hjúkrunarheimili við Hverahlíð í samvinnu ríkisins og Hveragerðisbæjar sem leggja mun til 15% framlag til byggingarinnar. Með þeirri framkvæmd mun enginn íbúi á hjúkrunarheimilinu á Ási framar þurfa að deila herbergi með öðrum og jafnframt bætast við 4 ný rými.
Skuldir vel undir skuldaþakinu
Á árinu 2021 mun rekstur Hveragerðisbæjar skapa tekjur sem duga fyrir rekstri stofnana og afborgunum langtímalána. Bæjarfélagið mun taka lán 400 m.kr til að standa straum af fjárfestingum. Samkvæmt fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar. Sé það gert er skuldahlutfall Hveragerðisbæjar 110%. Sé sú heimild ekki nýtt er skuldahlutfallið 137%.
Sátt ríkir um fjárhagsáætlunargerð
Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar var samþykkt samhljóða þann 10. desember s.l. Áætlunin var unnin sameiginlega af öllum bæjarfulltrúum og var samstarfið til fyrirmyndar. Hefur þessi háttur verið hafður á við fjárhagsáætlunargerð Hvergerðinga mörg undanfarin ár og ríkir mikil ánægja með þetta verklag. Sjaldan hefur verið meiri ástæða til að standa saman og standa vörð um samfélagið okkar en einmitt nú og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka bæði bæjarfulltrúum sem og stjórnendum og starfsmönnum samstarfið. Hvergerðingum og öðrum lesendum Dagskrárinnar óska ég gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri Hveragerðisbæjar