-6.3 C
Selfoss

Ég er örlítill grenjandi minnihluti

Vinsælast

Að vera Íslendingur og búa á Íslandi hefur sína kosti, og einn þeirra er frelsi til að velja sér atvinnu, búsetu og að ferðast um landið okkar, og svo mætti lengi telja.

Nú hefur starfsmaður þjóðarinnar sem ber titilinn umhverfisráðherra ákveðið að setja á laggirnar stofnun varðandi miðhálendisþjóðgarð. Þjóðgarður í sjálfu sér er ekki slæmt orð og frekar fallegt orð ef út í það er farið en þjóðgarður umhverfisráðherra er allt annað en eingöngu fallegt orð. Þar er verið að stofna en eitt ríkisbáknið í nafni vinstrisinnaðra umhverfissinna. Áform sem munu hafa grafalvarleg áhrif fyrir framtíðina, sem við erum að bjóða komandi kynslóðum upp á.

Ég er alinn upp við það, eins og svo margir aðrir, að fara hálendisferðir, bæði að sumri og vetri, og var kennt að virða náttúruna í einu og öllu. Ég hef tileinkað mér þann lífsstíl alla tíð og mín heitasta ósk er sú að mín börn og þeirra börn fái að upplifa það ferðafrelsi sem ég upplifi hér á Íslandi í dag.

En staðreynd málsins er sú að með miðhálendisþjóðgarði er verið að stofna enn stærra og meira ríkisbákn en með núverandi Vatnajökulsþjóðgarði og mun þessi nýi þjóðgarður skerða ferðafrelsi komandi kynslóða um ókomna tíð, ef ekkert verður að gert.

Á sama tíma og talað er um að vernda svæðið er verið að leggja til uppbyggingar gestastofa víðsvegar um landið og að auka aðgengi ferðamanna um svæðið en eingöngu þeirra sem umhverfisráðherra telur að eigi rétt á því að ferðast innan þjóðgarðsins. Í mínum huga hljómar þetta sem algjörar andstæður og engan veginn það sem umhverfisverndun hljóðar upp á, né að ráðherra sé kominn með slík völd að hann geti takmarkað ferðir Íslendinga og erlendra ferðamanna innan þjóðgarðsins.

Ég get ekki séð að það ríki sátt hjá sveitarstjórnarfólki með þessi áform og þessi vinnubrögð umhverfisráðherra. Þeir hafa t.d. bent á að fundarskipun fyrir hagsmunaaðila hafi oft verið með minna en eins dags fyrirvara. Það lítur því út fyrir að það eigi að þröngva þessu í gegn án þess að hlustað sé á íbúa og hagsmunaaðila innan þjóðgarðsins eða við rætur hans.

Sérstakt er að lesa skýrsluna um miðhálendisþjóðgarðinn þar sem tillögur og áherslur þverpólitískrar nefndar eru settar fram. Þar spyrja hagsmunaaðilar hvort ferðafrelsi ökutækja á slóðum og víðerni innan þjóðgarðsins sé tryggt og svarið sem þeir fá frá umhverfisráðherra er að fyrst og fremst sé verið að tryggja umhverfisvernd með stofnun þjóðgarðsins. Ferðafrelsi einstaklinga er ekki ofarlega í huga í sambandi við stofnun þjóðgarðsins og svörin engan veginn fullnægjandi hvað áhyggjufulla hagsmunaaðila varðar, hvort sem um áhugafólk varðandi svæðið er að ræða eða aðra aðila, svo sem atvinnurekendur eða sveitarstjórnir.

Þá hafa ófá félagasamtök sett sig upp á móti ákvörðuninni. En hvaða félagasamtök er átt við? Um er að ræða samtök þar sem umhverfisvernd er í hávegum höfð ásamt samtökum áhugamanna sem virða frelsi einstaklingsins til að ferðast á sinn máta . Þessi samtök hafa séð um viðhald á slóðum og samgöngum innan svæðisins, haldið utan um skála á hálendinu, gert göngustíga og unnið við gróðursetningu, allt í nafni sjálfboðastarfsins. Þessir einstaklingar munu hugsa sig tvisvar um þegar þjóðgarðsvörðurinn setur þeim leikreglurnar, hvar og hvenær þeir mega njóta landsins síns. Og ekki má gleyma sauðfjárbændum, en margir þeirra telja að sauðfjárrækt muni leggjast af við þessi áform, og er það ekki nákvæmlega það sem reynslan af þessu ári hefur kennt okkur, að treysta á eigið hyggjuvit og atvinnugreinarnar í landinu okkar, sem munu halda lífi í okkur þegar á móti blæs.

Það var ekki miðhálendisþjóðgarðurinn sem gerði hálendið að eftirsóttum stað heldur fólkið sem er við líf og störf á miðhálendinu. Það hefur hugsað vel um landið frá landnámi, fólk sem umhverfisráðherra hyggst hætta að treysta fyrir þessu göfuga verkefni, eingöngu vegna þess að allt í einu varð landið okkar vinsæll ferðamannastaður.

Í raun snýst þetta um völd og ekkert annað. Ætlum við að leyfa enn einu ríkisbákni vinstri manna að stjórna því hvernig við ferðumst og nýtum landið okkar eða ætlum við að halda áfram að halda landinu hreinu og framandi. Og treysta landsmönnum og sveitarfélögum í landinu til þess að hugsa vel um þá náttúruperlu sem miðhálendið okkar er. Frelsið á Íslandi er eitt af því sem gerir Ísland frábært.

Hvor þessara aðila mynduð þið treysta fyrir hálendinu, einstaka embættismönnum eða landsmönnum?

Höfundur er Vélstjóri og fjallamaður Ægir Óskar Gunnarsson

 

 

Nýjar fréttir