1.7 C
Selfoss

Í Landsbankahúsinu enn um sinn

Vinsælast

Landsbankahúsið á Selfossi var á dögunum selt Sigtúni Þróunarfélagi sem stendur fyrir uppbyggingu á nýjum miðbæ á Selfossi. Landsbankinn er þó ekki á förum úr húsinu í bráð því gerður hefur verið leigusamningur um áframhaldandi afnot bankans af 1. hæð og kjallara. Útibúið er því á sama stað, þótt húsið sé ekki lengur í eigu bankans.
„Landsbankahúsið er auðvitað glæsilegt og auðvitað er viss eftirsjá að húsinu, bæði meðal viðskiptavina og starfsfólks. Staðreyndin er þó sú að húsið var alltof stórt fyrir starfsemina og óhentugt að ýmsu leyti. Við erum samt alls ekki á förum úr húsinu strax því bankinn er búinn að ganga frá leigusamningi til tveggja ára með möguleika á framlengingu. Við sem vinnum í húsinu erum full tilhlökkunar að sjá hvaða húsnæði á Selfossi verður fyrir valinu,“ segir Nína G. Pálsdóttir, útibússtjóri Landsbankans á Selfossi. Ýmsir möguleikar hafa verið nefndir varðandi framtíðarhúsakost útibúsins en Nína segir að ekkert hafi enn verið ákveðið í þeim efnum. Nægur tími sé til að finna hentugt húsnæði í bænum. „Við erum með mikla markaðshlutdeild á Selfossi og á öllu Suðurlandi og við leggjum mikla áherslu á að veita hér góða þjónustu,“ segir hún. Í útibúinu á Selfossi eru 12 starfsmenn en alls eru starfsmennirnir 17 ef starfsstöðvarnar í Reykholti og Þorlákshöfn eru taldar með.

Sjáum fram á bjartari tíma

Öll útibú Landsbankans eru nú lokuð vegna sóttvarnaaðgerða. „Í staðinn veitum við þjónustu í gegnum síma eða tölvupóst, hraðbankarnir í útibúinu eru aðgengilegir allan sólarhringinn og það er auðvitað alltaf opið í netbankanum og Landsbankaappinu. Ef við getum ekki leyst úr málum með viðskiptavinum með þessum hætti tökum við á móti þeim í útibúunum samkvæmt tímapöntunum. Allt er þetta gert í varúðarskyni og sem betur fer sjáum við fram á bjartari tíma.“ Nína segir að þrátt fyrir að aðgengi að útibúum sé mjög takmarkað sé nóg að gera. „Staðreyndin er sú að útibúin á landsbyggðinni hafa í auknum mæli tekið að sér verkefni sem ekki eru bundin við tiltekna landshluta. Við hér á Selfossi höfum til dæmis verið að vinna verkefni sem snúa að úrvinnslu íbúðalána til viðskiptavina á höfuðborgarsvæðinu og veitt ráðgjöf í gegnum síma til viðskiptavina víða um land. Ég vona bara að fljótlega verði hægt að létta af sóttvarnaraðgerðum þannig að við getum boðið fleira fólk velkomið í útibúið á nýju ári,“ segir Nína.

Nýjar fréttir