-7 C
Selfoss

Ljós og myrkur

Vinsælast

Nú er hátíð ljóss og friðar.  Ég hef stundum velt fyrir mér hvers vegna talað er um ljós og hátíð ljóssins.  Mögulega er ástæða þess að í jólaguðspjallinu nefnir Jóhannes guðspjallamaður aldrei fæðingu heldur talar hann um líf og ljós er Jesú fæðist.

Við sem búum á okkar fallega landi vitum að hver árstíð er afgerandi á sinn hátt. Við eigum sumar, vetur, vor og haust.  Sterkar árstíðir sem hver hefur sín sérkenni.  Til að skerpa enn frekar á er munur birtu og myrkurs meiri á Íslandi en í flestum öðrum löndum.  Það er því enn frekar ástæða til að fagna hátíð ljóss og friðar.

Ég held að besta leiðin til að fagna hátíð ljóss og friðar sé að veita birtu inn í samfélag okkar og inn í hjörtu hvers annars.

Við getum öll dreift smá birtu frá okkur, það þarf ekki mikið til, fallegt bros, tillitssemi, uppbyggilegt samtal, hjálpsemi.  Gefa hvort öðru tíma.  Taka vel á móti þeim sem vilja flytja í samfélag okkar. Hlusta.  Leggja hjálparsamtökum lið.  Læra meira af fólki og dæma það síður.  Vera nærgætnari.  Muna að við erum öll að takast á við lífið og tilveruna á ólíkan hátt.  Muna að við erum ólík og að við ættum að fagna fjölbreytileikanum. Muna að þakka fyrir okkur í stóru sem smáu.  Leggja okkur fram um að horfa til þess sem vel er gert.  Tala um það jákvæða í samfélaginu og í fari fólks.  Ef við getum linað þjáningu með orðum eða athöfn, gerum það þá.

Það merkilega við það að dreifa birtu, er að hún skilar sér svo sterkt til baka.  Það má oft vart á milli sjá hvor fær meira út úr fallegu brosi, sá sem brosir eða sá sem brosað er til.

Fyrir mörgum er Jesús Kristur ljós lífsins, fyrir öðrum er annar boðberi ljóssins.  Held að við eigu þó það öll sameiginlegt að við þurfum ljós.

Það eru margar leiðir til að færa birtu inn í samfélag okkar, nýtum þær.

 

Guðmundur Ármann

 

 

 

Nýjar fréttir