-1.4 C
Selfoss

Gleð´ og friðarjól

Vinsælast

Einn góðan aðventudag sat ég við eldhúsborðið með tveimur af sonum mínum. Mér datt í hug að spyrja þá nokkurra spurninga.

 Strákar, af hverju höldum við upp á jólin?

Sá eldri: Af því að Jesús fæddist.

Sá yngri: Af því að maður fær pakka og góðan mat og sf því að maður fer í möndlukeppni.

Hvað getum við þá gert til að fagna því að Jesús fæddist?

Sá eldri: Með því að halda upp á jólin?

Sá yngri: Já og gefa okkur pakka?

Hvað getum við gert fyrir Jesú?

Sá eldri: Þakka honum að við séum til og þakka honum fyrir að jólin séu til.

Löngu seinna:

Sá yngri: Ég veit ekki alveg hvað við eigum að gera til að þakka honum fyrir. Kannski bara að bjóða honum til hamingju með afmælið!

Það var mjög áhugavert að hlusta á þessar pælingar sona minna og það minnti mig á jólalagið “Gleði og friðarjól” sem sungið er af Pálma Gunnarssyni og er spilað hver einustu jól. Í því segir meðal annars:

 

Mundu að þakka Guði

gjafir, frelsi’ og frið.

Þrautir, raunir náungans

víst koma okkur við.

Á mínu heimili er mikil eftirvænting og tilhlökkun fyrir jólunum. Það má einna helst sjá í lífi yngstu barnanna sem telja niður dagana og hlakkar mikið til. Það er mér svo mikilvægt að við gleymum ekki tilgangi jólanna. Gleymum því ekki að jólin snúast ekki bara um að fá heldur að gefa. Ekki bara gjafir. Heldur kærleika og umhyggju líka. Fyrir suma verða þessi jól öðruvísi en oft áður. Því er ennþá mikilvægara að muna ástæðu þess að við fögnum jólum. Jesús kom sem boðberi friðar inn í þennan heim. Hann kom sem ljós inn í myrkrið. Hann kom til að gefa okkur mannkyninu von.

Það er svo mikilvægt að halda í vonina. Ég hef lesið á samfélagsmiðlum að sumir geti ekki beðið eftir að árið 2020 líði á enda. Ég veit ekki hvort þú sért einn af þeim?  Þetta ár hefur svo sannarlega verið skrítið. Það hefur  reynt á þolrifin en það hefur líka, þrátt fyrir alltverið mörgum gott. Ég hvet þig til að staldra við og skoða hvað er hægt að þakka fyrir. Sumir hafa t.d. átt meiri tíma með fjölskyldunni, tekið heimilið i gegn, tileinkað sér nýja tækni, uppgötvað ný áhugamál o.s.frv. Hvernig væri að fara einn þakklætishring við matarborðið á aðafangadagskvöld og spyrja fjölskylduna hvað þau eru þakklát fyrir á árinu og auðvitað svara því sjálf/ur líka? Væri það ekki góð byrjun á aðfangadagskvöldi. Góð leið til að minna sig á að vera í augnablikinu og muna að það er margt að þakka fyrir. Það væri líka góð hugmynd að gera eins og yngsti sonur minn sagði eftir langa þögn og bjóða Jesú til hamingju með afmælið – eða með öðrum orðum. Óska honum til hamingju með afmælið

Í sama jólalagi og áður hefur verið nefnt segir:

Bráðum koma jólin,

bíða gjafirnar.

Út um allar byggðir

verða boðnar kræsingar,

en gleymum ekki Guði,

hann son sinn okkur fól.

Gleymum ekki’ að þakka

fyrir gleði’ og friðarjól.

 

Guð blessi þig og gefi þér gleð´ og friðarjól.

 

Gunna Stella

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir