7.8 C
Selfoss

Pífukragi

Vinsælast

Pífur eru mjög vinsælar á barnafötum þessa dagana og hér kemur uppskrift að pífukraga sem getur farið vel við boli og kjóla við ýmis tilefni, ekki síst við hátíðarfötin. Fljótlegt og þægilegt.

Garnið heitir Fiesta og er frá Cewec. Það er að mestu úr viskos og bómull og hefur háglans áferð en er líka loðið. Garnið er sérlega mjúkt og fallegt og fæst í nokkrum litum. 1 dokka dugar í kragann. Til að binda kragann þarf 80 sm satínborða sem við eigum í ótal litum og breiddum. Prjónar no 4. Prjónafesta: 23 lykkjur = 10 sm

Stærðir: 6 mánaða, (1 árs) 2ja (3ja) 4ra ára.

Fitjið upp 190 (200) 210 (220) 230 lykkjur. Fyrsta lykkjan er alltaf tekin óprjónuð fram af prjóninum. Prjónið sl til baka og síðan 2 umf sl. Þá eru komnir 2 garðar. Næsta umf er á réttunni. Hér eftir er prjónað sl á réttunni og br á röngunni.

Vel má prjóna kragann með sl prjóni eftir garðaprjónskantinn en hér var prjónað einfalt gataprjón þannig: Prjónið fyrst 4 umf. ** – *Prj saman 5. og 6. l og sláið síðan upp á prjóninn*. Endurtakið * – * út umferðina. Þegar prjónað er br til baka er prjónað í þráðinn sem slegið var upp á. Prjónið síðan 2 umf. * Prj 1 l, prj 2. og 3. l saman. Sláið upp á prjóninn, prj 3 l *. Endurtakið * – * út umferðina. Prjónið til baka eins og áður og síðan 2 umf **. Endurtakið ** – ** þar til breiddin er orðin 4 (5) 5 (6) 6 sm en endið á einni eða þremur umferðum eftir gataprjónsumferð.

Í næstu umf er fyrsta l tekin fram af prjóninum óprjónuð eins og áður og síðan prjónaðar saman tvær l út umferðina. Þá hefur lykkjum fækkað næstum um helming. Prjónið brugðið til baka. Síðan er prjónuð önnur umferð þar sem lykkjum er fækkað með því að prjóna til skiptis 1 l og því næst 2 l saman. Prjónið slétt prjón til baka. Þá eiga að vera 64 (68) 71 (74) 78 l á prjóninum.

Næst er prjónaður kantur. Prjónið sl á réttunni og br á röngunni alls 7 umf og síðan sl prjón eina umf en þá verður til rönd sem endar efst á kantinum. Prjónið aftur 7 umf eins og áður og fellið síðan laust af. Slítið frá, hafið endann langan og dragið hann í gegnum síðustu lykkjuna. Saumið kragann niður á röngunni með því að þræða, án þess að strekkja á endanum, í gegnum aðra hverja lykkju til skiptis í affellingunni og í neðstu umferðina í kantinum. Gangið frá endum. Þvoið í volgu sápuvatni, leggið til þerris og mótið í leiðinni fellingarnar.

Þræðið satínbandið í kantinn. Annar möguleiki er að búa til hneslu og setja tölu hinumegin.

 

Hönnun: Alda Sigurðardóttir

 

Nýjar fréttir