3.9 C
Selfoss

Hvers vegna Hálendisþjóðgarð?

Vinsælast

Nokkuð hefur verið ritað og rætt síðustu misseri um stofnun Hálendisþjóðgarðs og sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Ýmsir hafa þeyst fram á ritvöllinn og tjáð sínar skoðanir. Ég finn mig knúna til að leggja orð í belg varðandi þetta málefni enda hálendi Íslands mér bæði hjartfólgið og dýrmætt. Þær raddir sem eru mótfallnar Hálendisþjóðgarði hafa haft hátt en minna heyrst frá þeim sem eru fylgjandi málefninu, þó ég telji að það segi samt ekki allt um stærð þessara hópa. Í mínum huga eru mikil tækifæri fólgin í stofnun Hálendisþjóðgarðs. Það myndi styrkja hinar dreifðari sveitir landsins, aukin atvinnutækifæri með tilheyrandi jákvæðum áhrifum inn í samfélögin. Verkefninu myndi fylgja aukin náttúruvernd og umsjón með viðkvæmum svæðum, uppbygging innviða og stýring á álagi. Með þessu er ég alls ekki að kasta rýrð á þau góðu verk sem mörg sveitarfélög hafa unnið á hálendinu, síður en svo, en ég sé því heldur ekkert til fyrirstöðu að ríki og sveitarfélög fari í samstarf og myndi það efla hálendið enn frekar. Það myndu allir græða á því. Sumir segja að þetta verkefni sé of fjárfrekt ekki síst nú þegar herðir að. Að mínu mati finnst mér það fagnaðarefni að veita eigi fé til náttúru Íslands, allt of oft hefur mér fundist náttúran átt undir högg að sækja og alls ekki fengið að njóta sannmælis þegar efnislegar mælistikur eru settar fram, t.d. þegar virkjunarkostir eru vegnir og metnir. Því tel ég að hverri krónu sé vel varið til handa náttúruvernd, auk þess sem ef vel er á haldið, skili þær sér margfalt til baka. Ég hef ferðast töluvert um hálendi Íslands, á hestum, gangandi eða á bíl og elska það að ferðast um óbyggð víðerni. Hver áfangastaður hefur sína töfra og svæðin ólík. Mig langar að nefna skemmtilega upplifun í Vatnajökulsþjóðgarði þar sem ég var á ferð. Landverðir á svæðinu buðu upp á leiðsögn um náttúruperlur þar sem hægt var að fræðast um svæðið, sögu og jarðfræði. Slíkt myndi ég vilja sjá víðar en slíka fræðslu er ekki boðið upp á nema skipulögð starfsemi sé á svæðinu s.s. landvarsla en það hafa sveitarfélög ein og sér ekki haft bolmagn til að bjóða uppá hingað til.

Stofnun Hálendisþjóðgarðs er hvorki einföld né auðveld aðgerð, gefa þarf góðan tíma til skrafs og ráðagerða, semja sig niður á sameiginlega niðurstöðu. Ég hef tröllatrú á slíkum vinnubrögðum. Ég tel að umhverfisráðherra hafi lagt sig í alvörunni fram um að taka þetta samtal, hlustað á hagaðila og teygt sig langt til að ná sáttum. Komið hefur verið á móts við sveitarfélög og hagaðila t.d. varðandi áhyggjur sveitarfélaga varðandi aðkomu þeirra að skipulagsmálum með skýrari útfærslu, mögulegir virkjunarkostir verði á skilgreindum jaðarsvæðum og breytt tillögum um svæðisskiptingar eftir óskum sveitarfélaga. Ég vil hvetja alla til að kynna sér þetta verkefni og mynda sér skoðun á því á eigin forsendum. Því miður er það mín upplifun að það eru ekki allir tilbúnir til að taka samtalið og vilja þverskallast á móti stofnun Hálendisþjóðgarðs, sama hvað. Ég vil hvetja alla sem málið varðar til að taka samtalið með jákvæðum huga og að minnsta kosti reyna að sjá kosti við stofnun Hálendisþjóðgarðs, sem eru jú mýmargir.

Kolbrún Haraldsdóttir

 

 

Nýjar fréttir