-6.1 C
Selfoss
Home Fréttir Framsækin frumvörp í boði Framsóknar

Framsækin frumvörp í boði Framsóknar

0
Framsækin frumvörp í boði Framsóknar

Framsóknarflokkurinn hefur verið í fararbroddi á vettvangi jafnréttismála og fjölskyldumála um áratugaskeið. Páll Pétursson var félagsmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins þegar gerð var veigamikil breyting á lögum um fæðingarorlof árið 2000. Ísland var þá fyrsta landið í heiminu til að lögbinda rétt beggja foreldra til töku fæðingarorlofs.

Viðamikil endurskoðun

Núverandi félags- og barnamálaráðherra, og þingmaður Framsóknarflokksins, Ásmundur Einar Daðason hefur nú lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Ráðherra skipaði nefnd í ágúst 2019 sem hafði það hlutverk að endurskoða lögin frá árinu 2000 í heild sinni. Alls er gert ráð fyrir að 19,1 milljarði króna verði varið í fæðingarorlof á árinu 2021 sem er tæplega tvöföldun á þeim fjármunum sem fóru til málaflokksins árið 2017, á verðlagi hvors árs.

12 mánuðir

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu er lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði vegna barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. janúar 2021. Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verður sex mánuðir en foreldrum verður heimilt að framselja einn mánuð sín á milli, og því getur annað foreldrið tekið fæðingarorlof í sjö mánuði en hitt í fimm.

Undantekningar frá reglunni

Þá eru lagðar til frekari heimildir til yfirfærslu réttinda á milli foreldra þegar annað foreldri getur ekki af nánar tilgreindum ástæðum nýtt sinn rétt til fæðingarorlofs. Það gæti t.d. átt við þegar börn hafa ekki feðruð og þegar umgengni annars foreldris við barnið er engin eða verulega takmörkuð á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla.

Styrkur til þeirra sem búa fjarri fæðingarstað

Þá er lagt til að barnshafandi foreldri verði veittur sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu. Það þýðir aðí þeim tilvikum þegar barnshafandi foreldri þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu, fyrir áætlaðan fæðingardag, í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barnsins getur það fengið fjárhagsstyrk. Því síðastnefnda fagna ég sérstaklega, en á haustþingi 2017  lagði ég fram frumvarp þess efnis að fæðingarorlof þeirra sem þyrftu að hefja töku fæðingarorlofs snemma vegna búsetu fjarri fæðingarstað, yrði lengd sem næmi þeim tíma sem fólk yrði að dvelja fjarri heimili. Þar með yrði réttur barna til samveru við foreldra fyrstu mánuði lífsins tryggður án tillits til búsetu þeirra.

Mögulegar breytingar í meðferð Alþingis

Alþingi hefur nú fengið málið til efnislegrar meðferðar. Það kann að fara svo að gerðar verði einhverjar breytingar á framlögðu frumvarpi ráðherra, því þingmenn kunna að hafa ólíka sýn á einstaka útfærslur laganna. Stóra myndin er hins vegar alltaf sú, að vegna áherslna Framsóknarflokksins mun fæðingarorlof foreldra og þar með réttur barna til samvista við foreldra sína verða lengdur úr 9 mánuðum, eins og staðan var við upphafi kjörtímabilsins 2017,  og í 12 mánuði frá og með komandi áramótum.

Enn eitt framfaraskrefið hefur verið stigið í boði Framsóknarflokksins. Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins