1.7 C
Selfoss

Öðruvísi aðventa

Vinsælast

Aðventan er gengin i garð. Þessi ljúfi, yndislegi og fallegi tími. Aðventan í ár verður líklega öðruvísi en við erum vön. Aðventunni fylgja oft allskonar samverustundir, jólahlaðborð, jólaskemmtanir og slíkt. Það er eðlilegt að syrgja það að aðventan sé ekki eins og vanalega.

Það sem mér finnst jákvætt er að það sem ég hingað til hef tekið sem  sjálfsögðum hlut mun ég  meta betur þegar lífið verður aftur “eðlilegt”.  Ég veit nú að það er ekki sjálfsagt að fá að gefa vinum og ættingjum jólaknús. Ég veit að það er ekki sjálfsagt að tengdafjölskyldan hittist í laufabrauðsgerð. Ég veit nú að það er ekki sjálfsagt að fá að mæta í Ikea og taka myndir með jólasveininum og ég veit að það svo sannarlega eftir þetta ár að það er ekki sjálfsagt að fá að mæta í kirkju.

Þar sem ég sit hér heima og skrifa þennan pistil með Michael Bublé

á “fóninum” (já á vinylplötu), þá horfi ég í kringum mig og spyr mig. Gunna Stella, hvað ertu þakklát fyrir á þessari “öðruvísi” aðventu?

  • Ég er þakklát fyrir það að raðirnar í búðir geri það að verkum að ég vel betur hvenær og hvar ég fer i búðir.
  • Ég er þakklát fyrir það að á meðan ég bíð í röð þá þarf ég að læra að vera en ekki flýta mér eins og svo oft.
  • Ég er þakklát fyrir að geta fengið jólatónleika beint heim í stofu á viðráðanlegu verði eða jafnvel ókeypis.
  • Ég er þakklát fyrir að fá að vera meira með nánustu fjölskyldu.
  • Ég er þakklát fyrir að geta pantað jólagjafir á netinu.
  • Ég er þakklát fyrir að taka hefðir og venjur ekki lengur sem sjálfsagðan hlut.
  • Ég er þakklát fyrir hversu margir kveiktu snemma á jólaljósunum
  • Ég er þakklát fyrir að sama hverjar ytri aðstæður eru þá eru jólin hátíð ljóss og friðar
  • Ég er þakklát fyrir að veitingastaðir og verslanir hugsa út fyrir kassann og gera aðventuna einfaldari fyrir okkur öll
  • Ég er þakklát fyrir jólalögin sem eru farin að heyrast í útvarpinu
  • Ég er þakklát fyrir myrkrið sem gerir þennan árstíma extra notalegan.
  • Ég er þakklát fyrir jólamyndir! TAKK Netflix.
  • Ég er þakklát fyrir lyktina af grenigreinunum sem ég notaði í aðventukransinn.
  • Ég er þakklát fyrir þig!

Ég átta mig á því að það er svo óendanlega margt sem ég get verið þakklát fyrir. Ég fæ tár í augun við að hugsa um allt það fallega og góða sem lífið bíður upp á. Ég veit samt að þetta er erfitt. Ég veit að þetta er öðruvísi. Einn daginn munum við þó eiga möguleika á að  líta við til baka og þakka fyrir það sem þessi tími kenndi okkur. Förum frá sársauka yfir í sigur. Hvernig hljómar það?

Oft er aðventan þannig að okkur finnst við þurfa allskonar en nú er “ég þarf að”  listinn aldeilis búin að minnka.

Ég þarf að fara  jólahlaðborð.

Ég þarf að þrífa húsið hátt og lágt

Ég þarf að fara í jólaboð

Ég þarf  að gera aðventukrans.

Ég þarf að fara í Ikea og taka myndir með jólasveininum.

Ég þarf að senda jólakort.

Ég þarf að horfa á jólamyndir.

Ég þarf að mæta í skötuveislu.

Hvernig væri að við myndum hætta að segja við okkur “Ég þarf að” og breyta listanum í “Ég vil”…!

“Hvað viltu gera á þessari “öðruvísi” aðventu og fyrir hvað ertu þakklát/ur?

 Einfaldara líf er að leyfa því sem mestu máli skiptir að hafa forgang,

en fjarlægja úr lífi okkar það sem vinnur gegn því.

Ef þú vilt skoða frekar hvernig hægt er að einfalda aðventuna eða gera hana þægilegri þá mæli ég með því að þú hlustir á hlaðvarpið mitt Einfaldara líf. Þú getur nálgast hlaðvarpið á öllum helstu hlaðvarpsmiðlum. T.d Spotify, ITunes, Youtube, google podcast o.sfrv.

Ég deili reglulega uppbyggjandi tilvitnunum, myndum og hugleiðingum á samfélagsmiðlum. Þú getur fundið mig á Instagram og Facebook undir nafninu “Gunna Stella”

 

Kærleiks”knús”

Gunna Stella

Nýjar fréttir