-0.5 C
Selfoss

„Okkur finnst bara að það vanti svo margt inn í kynfræðsluna“

Vinsælast

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra hefur látið til sín taka í því að gera gangskör í bætti kynfræðslu í skólum landsins. Fyrsta skrefið er að taka út núverandi fyrirkomulag í samvinnu við Sigríði Dögg Arnarsdóttur, kynfræðing og Sólborgu Guðbrandsdóttur fyrirlesara, sem haldið hefur úti samfélagsmiðlinum „Fávitar“ og gefið út samnefnda bók. Það er þó ekki eingöngu ráðherra sem kallar eftir breytingum heldur hafa krakkar í Grunnskólanum á Hellu óskað eftir því við skólastjórnendur að efla og uppfæra fræðsluna í takt við breytta tíma. Við ræddum við Nathaliu Lind O. Sölvadóttur um hvernig það horfir við henni.

Umræðan þarf að vera dýpri svo hún gagnist sem best

Það er að heyra á Nathaliu Lind að umræðan megi vera á dýptina og taka á sem flestum málaflokkum. „Okkur finnst bara að það vanti svo margt inn í kynfræðsluna hjá okkur í skólanum. Við viljum sjá til þess að hún sé upp á 10 bara fyrir okkur öll til að fræðast um og vera undirbúin undir það sem við tekur í framtíðinni. Því það er svo margt sem vantar þarna inn, eins og staðan er í dag!“ Aðspurð um hvað það sé sem þeim þyki helst standa út af borðinu segir hún: „Við þurfum meiri umræðu um kynlíf, mörk og sambönd. Kynferðisofbeldi og samskipti. Kynþroska, blæðingar, trans, gay, hinseginleikann og allt annað sem er í gangi núna í heiminum og bara allskonar.“

Mikilvægt að umræðan sé hispurslaus og uppi á yfirborðinu

Þegar ég ræði við Nathaliu Lind kemur strax fram að það sé afar mikilvægt að umræðan sé hispurslaus og uppi á yfirborðinu. Svona án alls tals undir rós. „Það er mikilvægt svo að börn og unglingar geta spurt og frætt sig án þess að það sé eitthvað feimnismál. Því ef þetta er feimnismál þá er svo erfitt að vera staddur í vanda og að vita ekki hvað þau eiga að gera. Sem dæmi bara á fyrstu blæðingum, í kynferðisofbeldi, í hinseginleikanum eða guð má vita hvað. Ef við erum dugleg að tala um þessa hluti þá getur það komið í veg fyrir feimni og/eða vanda hjá börnum og unglingum,“ segir Nathalia Lind.

Umræðan ekki jafn mikið feimnismál og áður

Þegar við Nathalia berum saman nútímann og hvernig þetta var áður erum við nokkuð sannfærð um að málefnið sé mun opnara en áður. „Það er auðvitað misjafnt hvað fólk er opið. Sumum finnst þetta svaka feimnismál og bara skömmustulegt en öðrum finnst bara allt í lagi að tala um þetta. En það er samt svo mikilvægt að vita að það er ekkert skrýtið og á ekki að vera nein skömm í þessum málum, þetta er allt eðlilegt og eðlilegar pælingar,“ segir Nathalia.

Samskipti milli unglinga betri en þau voru

Ég spyr Nathaliu Lind hvernig hún meti samskipti unglinga í dag, hvort þau fari versnandi eða séu að batna. „Ef ég á að vera hreinskilin þá eru þau orðin betri en þau voru, miðað við hvað maður hefur heyrt. En það eru enn þá unglingar þarna úti sem vilja ekki tala um þetta og þá er mikilvægt að tala um þessa hluti til þess að opna þeirra hlið á þessu máli.“ Það segir hún að hluta til ganga vel vegna samfélagsmiðla og opinnar umræðu þar, sem dæmi á Instagram er síðan Fávitar sem fræðir mjög vel um allskonar tengt málefninu. „Mér finnst bara frábært að fólkið í samfélaginu er að taka þátt í þessu og láta í sér heyra. Því það er mjög mikilvægt. Endilega haldið áfram að láta í ykkur heyra því þín rödd skiptir máli! Og ef það eru einhverjar spurningar eða vandamál þá ekki hika við að spyrja og leita ykkur hjálpar.“

Viðbrögð skólans jákvæð

Við ræðum að lokum um það hvernig viðbrögð skólans hafi verið. Nathalia segir að þau hafi verið mjög góð. „Það gleður mig svo mikið að skólastjórnendur séu opin fyrir þessu og vilji gera allt sitt besta,“ segir Nathalia að lokum. -gpp

Nýjar fréttir