1.1 C
Selfoss

Flúor og tannheilsa

Vinsælast

Flúor er eitt einfaldasta en jafnframt öflugasta vopnið okkar fyrir bættri tannheilsu. Ég hef áður skrifað um mikilvægi flúortannkrems hjá börnum en tek nú saman helstu þætti flúors.

Hvernig hjálpar flúor?
Flúor er afar hvarfgjarnt efni. Ef við sleppum fræðilegum flækjum má segja að flúor styrki glerung tanna m.þ.a. hvarfast/bindast glerungnum. Glerungurinn breytir um kristalsuppbyggingu og verður sterkari/harðari. Flúor hjálpar einnig við að endurkalka/herða/stöðva byrjandi skemmdir svo síður þurfi viðgerðir. Flúor hefur einnig bakteríuhemjandi áhrif. Virknin fæst með yfirborðsvirkni, „beinni snertingu“ flúors við tennurnar. Það er gagnslaust að innbyrða flúor líkt og lyf.

Hvar fæ ég flúor?
Á Íslandi er helsta uppspretta flúors frá tannkremi, en einnig má nefna t.d. flúorlakk, flúorskol, flúortyggjó og flúortyggitöflur (á undanhaldi). Flúori er ekki bætt í vatn/mjólk/drykki á Íslandi líkt og í sumum nágrannalöndum. Náttúrulegur flúor er ekki mikill í nærumhverfi flestra Íslendinga.

„En er flúor ekki eitraður“?
Nei. Flúor var fyrst skipulega bætt í neysluvatn í Bandaríkjunum árið 1945. Einföld, ódýr en jafnframt áhrifarík leið til stórbættrar tannheilsu og í dag eru um73% þjóðarinnar með flúorbætt neysluvatn. Ekki eru þó allir á eitt sáttir við þvingaðar aðgerðir í landi frelsisins og því má finna aragrúa af (misgáfulegum) áróðri frá Bandaríkjunum gegn flúori.
Áróðurinn hefur fyrir löngu verið kveðinn niður, en engu að síður er til nóg af „sjálfskipuðum heilsusérfræðingum“ og efasemdafólki sem liggja ekki á skoðunum sínum um flúor (nú eða um bólusetningar). Það er svosem gott að vera gagnrýninn í hugsun og gleypa ekki við öllu sem tannlæknirinn segir, sannreyna skal skilaboðin. Boðskapur „heilsusérfræðinganna“ er yfirleitt að flúor sé eitraður (m.a. notaður í rottueitur), skaði tennur, heilsuna o.fl. Einnig er nefndur gaddur í búfénaði vegna gjósku (sem er allt annars eðlis). Skortur á að sjá heildarmyndina svífur yfirleitt yfir vötnunum í þessum málflutningi. Það verður t.a.m. að hafa í huga að skammtastærðin skiptir gríðarmiklu máli. Hið fornkveðna „það er skammturinn sem skapar eitrið“ (lat. sola dosis facit venenum) gildir hér sem fyrr. Vatn, salt og A-vítamín eru dæmi um lífsnauðsynleg efni í hóflegum skammti en verða banvæn ef þeirra er neytt í of stórum skammti. Flúor gagnast án þess að vera innbyrtur og flúormagnið sem þarf til að fá jákvæð áhrif fyrir tennur er afar lítið. Flúorstyrkur í hefðbundnu tannkremi er t.d. ekki nema um 1500ppm (0,15%).
Eftir tannburstun spýtum við frá okkur en kyngjum ekki. Vissulega fer snefilmagn niður meltingarveginn. Magnið er þó lítið og hefur engin áhrif, flúorinn hvarfast við magainnihaldið. Ég er hrifnari af flúortannkremi og flúorskolum heldur en flúoríbætingu vatns og annarra neysluvara sem eru innbyrtar. Engu að síður hefur ekki verið sýnt fram á skaðleg áhrif innbyrðingar í hóflegu/eðlilegu magni. Ofskammtar flúors geta haft ertandi áhrif á meltingarveg, og langvarandi háir skammtar geta valdið flúorflekkjum á tönnum (fluorosis). Geymum því tannkrem þar sem börn ná ekki til svo þau gleypi ekki allt úr túpunni ef bragðið er gott.

Á endanum verðum við að leggja öll lóð á vogarskálarnar: Jákvæð áhrif lágskammta flúors á tannheilsu og hins vegar langsótt hætta af ofskömmtun. Slæm tannheilsa hefur víðtæk áhrif á almennt heilsufar. Kostirnir yfirvinna gallana án nokkurs vafa.

Hvaða tannkrem á ég að kaupa?
Kauptu tannkrem með hámarks flúorstyrk (1400-1500ppm). Enginn með tennur ætti að nota tannkrem undir 1000ppm. Það er vandasamt að framleiða flúortannkrem án þess að flúorinn hvarfist í vinnsluferlinu eða túbunni (verður þá gagnslítill og hvarfast síður við tennur). Ég mæli því með að kaupa „stóru“ nöfnin í stað smærri framleiðenda eða ódýrra „verslunarkeðjumerkja“. Um ágæti ópakkaðra tannkremstaflna sem eiga að innihalda flúor set ég spurningamerki um hvort flúorinn sé enn óhvarfaður.

Almennt: Ekki skola munninn með vatni eða munnskoli eftir tannburstun, annars skolarðu burt tannkremsflúornum sem átti að styrkja tennurnar.

En hvað með munnskol?
Gerum greinarmun á „munnskoli“ og „flúorskoli“. Flest munnskol innihalda lítinn sem engan flúor (oft um 0-0,02%). Þau eru því svo til gagnslaus þegar að flúorumræðunni kemur og gera ógagn ef þau skola burt tannkremsflúornum. Almennt eiga flestir að geta viðhaldið góðri stöðu tanna án skols. Og hinir sem raunverulega þurfa meiri flúor skulu passa að kaupa skol með (a.m.k.) 0,2% (2000ppm) flúorstyrk (vandfundið). Ef skolið á að koma að gagni ætti frekar að skola um miðjan dag heldur en eftir tannburstun á kvöldin. Sömuleiðis mætti bursta létt um miðjan dag. Þannig fá tennurnar þrisvar flúorbað yfir daginn en ekki tvisvar. Það er einnig til lyfseðilsskylt háskammta flúortannkrem (5000ppm). Ráðfærðu þig við þinn tannlækni um hvað hentar þér.

Flúorlausar tannvörur
Fyrrnefndir „heilsusérfræðingar“ tala gjarnan fyrir flúorlausu tannkremi eða flúorlausum tannkremstöflum. Þar sem flúorinn er aðalefnið sem við sækjum í með tannburstun er alveg eins gott að sleppa tannkreminu ef nota á flúorlaust tannkrem. Það er sorglegt þegar við sjáum á röntgenmyndum heimilismanna að innkaupastjóri heimilisins hafi skipt yfir í flúorlaust tannkrem. Það sjáum við með mikilli aukningu á skemmdum og byrjandi skemmdum. Það ber þó að virða skoðanir og val annarra, ef fullorðið fólk kýs að nota flúorlaust tannkrem verður bara að hafa það. En í guðanna bænum axlið ábyrgð og hlífið börnum við flúorlausu tannkremi þangað til þau eru orðin fullvaxta og geta tekið upplýsta ákvörðun sjálf um hvað þau vilja nota. Skaðinn sem þau geta orðið fyrir af flúorleysi forráðamanna sinna fylgir þeim alla ævi.

Sverrir Örn Hlöðversson,
tannlæknir

Nýjar fréttir