7.3 C
Selfoss

Straumi hleypt á jarðstreng yfir Reynisfjall

Vinsælast

Í þessari viku var hleypt straumi á nýjan 13 km jarðstreng sem lagður var í sumar og liggur frá Klifanda austan við Pétursey yfir Reynisfjall og að aðveitustöð RARIK í Vík Í Mýrdal.

Nær samfelldur 33 kV rafstrengur er því nú frá Rimakoti á Landeyjasandi og að Vík og er heildarlengd strengsins um 64 km. Strengurinn hefur verið lagður í áföngum á liðnum árum og kemur hann í stað eldri loftlína. Undanfarin ár hafa flestar bilanir á þessu svæði orðið á línunni yfir Reynisfjall og oftar en ekki hafa aðstæður til viðgerða verið mjög erfiðar vegna veðurs og ísingar. Enn er þó um 1 km loftlína yfir Markarfljót vegna þess hve erfitt er að tryggja legu strengsins í fljótinu. Sá hluti er sérstaklega styrktur og stóð af sér flóð í Markarfljóti sem varð í kjölfar eldsumbrota í Eyjafjallajökli.

Að lokinni þessari framkvæmd er allt dreifikerfið í Mýrdal, bæði 19 kV og 33 kV komið í jarðstrengi. Með stærri vararafstöð í Vík sem væntanleg er með vorinu og jarðstrengslögn frá Álftaveri í Hrífunes og þar með tengingu til Kirkjubæjarklausturs eykst afhendingaröryggi raforku til muna í Vík og í Mýrdal.

Núverandi loftlína frá Klifanda að Vík sem reist var árið 1982 og línan yfir Reynisfjall sem reist var árið 1963, verða fjarlægðar með vorinu.

 

 

Nýjar fréttir