3.9 C
Selfoss

Saman gegn ofbeldi

Vinsælast

Breiðfylking gegn kynbundnu ofbeldi er í fæðingu á Suðurlandi. Soroptimistaklúbbur Suðurlands er núna þessar vikurnar að undirbúa stofnun þjónustu fyrir þolendur kynbundins ofbeldis sem verður til húsa á Selfossi.  Öll sunnlensk sveitarfélög styðja við bakið á úrræðinu sem hefur fengið nafnið SIGURHÆÐIR.  Með í undirbúningnum er lögreglan á Suðurlandi, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Kvennaráðgjöfin, félagsþjónustur sveitarfélaganna á Suðurlandi og fleiri. SIGURHÆÐIR munu marka byltingu í þjónustu við þolendur ofbeldis í landshlutanum, sem munu þar fá ráðgjöf, stuðning, hópameðferð, einstaklingsviðtöl, áfallameðferð, lögfræðilega ráðgjöf og aðstoð lögreglu ef verkast vill. Þá verður samhliða veitt umfangsmikil fræðsla um kynbundið ofbeldi sem standa mun almenningi til boða.

Með Sunnlendingum í liði

Soroptimistaklúbbur Suðurlands er hluti af Soroptimistasambandi Íslands sem hefur ákveðið að standa þétt við bakið á systrum sínum á Suðurlandi um þetta viðamikla verkefni. Þar með taka á sjöunda hundrað Soroptimista um allt land afdráttarlausa afstöðu með Sunnlendingum. Soroptimistar á Suðurlandi hafa einnig leitað til opinberra aðila, atvinnulífs og einstaklinga um stuðning við verkefnið. Hefur dómsmálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið styrkt verkefnið um 1,5 milljónir króna og öll sunnlensk sveitarfélög eru um þessar mundir að ganga frá styrkjum til SIGURHÆÐA. Einhugurinn að baka verkefninu er einstakur.

Roðagyllt átak gegn ofbeldi

  1. nóvember hefst hið svokallaða 16 daga átak gegn ofbeldi sem stendur til 10. desember. Um allan heim er efnt til margvíslegra aðgerða í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, þótt COVID-19 setji vissulega strik í reikninginn. Soroptimistar á heimsvísu fylkja sér saman undir slagorðinu Roðagyllum heiminn, og leitast við að gera appelsínugula litinn eins sýnilegan þessa daga og mögulegt er. Hér á Suðurlandi hafa Soroptimistar hvatt fyrirtæki og stofnanir til að lýsa upp byggingar sínar í appelsínugula litnum til að sýna samhug sinn í baráttunni gegn ofbeldi í verki. Og Soroptimistasystur ætla að klæðast appelsínugulu 25. nóvember og hvetja Sunnlendinga til hins sama.

Er kynbundið ofbeldi vandamál á Suðurlandi?

Talið er að á heimsvísu hafi þriðja hver kona orðið fyrir kynbundnu ofbeldi einhverju sinni á ævinni og margar þeirra síendurtekið. Hér á landi benda rannsóknir til að fjórða hver kona hafi orðið fyrir ofbeldi. Ásókn í úrræði eins og Stígamót, Kvennaathvarf, Drekaslóð og Aflið á Akureyri er mikil og yfirleitt eru þar biðlistar eftir þjónustu. Aðsókn í ný úrræði eins og Bjarmahlíð á Akureyri og Bjarkarhlíð í Reykjavík, sem að mörgu leyti eru fyrirmyndir Sigurhæða,  varð strax eftir stofnun þeirra meiri en búist var við. Engin ástæða er til að ætla að Suðurland sé hótinu betri eða verri en aðrir landshlutar þegar kemur að kynbundnu ofbeldi. Hér í okkar sunnlenska samfélagi eru konur sem þjást í þögn og úrræðaleysi. Þetta eru dætur, systur, mæður, já ömmur líka, og tilheyra þær öllum þjóðfélagshópum. Þessu ætlum við að breyta.

Komdu með upp SIGURHÆÐIR

Sunnlenskar soroptimistasystur færast mikið í fang með stofnun SIGURHÆÐA og meira þarf ef duga skal. Úrræðið er ekki ódýrt, enda munu faglegir meðferðaraðilar starfa með verkefninu og öll þjónusta verður gjaldfrí. Miðað við hversu vel undirbúningurinn gengur má ætla að SIGURHÆÐIR geti tekið til starfa að áliðnum þeim vetri sem nú er að hefjast. En til að allt smelli saman þurfum við að leita til almennings á Suðurlandi um stuðning. Ef þú vilt styðja við bakið á SIGURHÆÐUM er fjárframlag vel þegið. Vertu viss um að það kemur að góðum notum. Vertu með okkur og þolendum ofbeldis í göngunni upp SIGURHÆÐIR. Vertu með!

Nánar má fræðast um verkefnið á YouTube, leitarorð SIGURHÆÐIR.

Bankareikningur SIGURHÆÐA er 0325-13-400047

Kennitala: 620210-1370.

Með innilegum þökkum.

Hildur Jónsdóttir

Verkefnisstýra SIGURHÆÐA

Nýjar fréttir