Sum hús hafa yfir sér reisn og myndugleika. Stjórnendur Landsbankans á fyrri hluta síðustu aldar vildu að það mætti sjá á húsakynnum bankans að saman færi traust og íhaldssemi. Höfuðstöðvar bankans voru í Reykjavík, í byggingu, sem Guðjón Samúelsson hannaði á rústum byggingar sem brann 1915. Þegar kom að því að reisa starfsstöðvar fyrir Landsbankann á Akureyri, Ísafirði og Selfossi, var útlit þeirra samræmt höfuðstöðvunum í Reykjavík.
Nú er svo komið að byggingin á Selfossi er ekki talin henta nútímabankarekstri. Við sjáum þess mörg dæmi að notkun húsa breytist og sjálft Stjórnarráðið hýsti áður fanga í betrunarvist. Getum við fundið þessu reisulega húsi göfugt hlutverk sem um leið auðgar og lyftir andanum?
Landsbankahúsið á Selfossi gæti hýst hluta af Listasafni Íslands, sem nú er aðeins staðsett í Reykjavík. Sýning á verkum frumherja íslenskrar myndlistar á að vera úti á landsbyggðinni, ekki síður en í Reykjavík. Flestir stærstu myndlistarmenn í upphafi 20. aldar voru „utan af landi“ og þaðan kom þeim andagiftin.
Jafnframt er vel við hæfi að Landsbankinn leyfi íslensku þjóðinni og gestum hennar að njóta þeirra stórbrotnu myndlistaverka íslenskra meistara sem bankinn á í sínum fórum. Landsbankinn og Listasafn Íslands ættu að taka höndum saman um það verkefni og losa geymslupláss um leið. Húsið gæti einnig orðið rými fyrir tímabundnar einkasýningar.
Þegar á móti blæs á að hugsa stórt. Við höfum lært það, bæði sem þjóð og einstaklingar, að það eru menningarverðmætin sem sameina okkur og halda áfram að gefa af sér kynslóð eftir kynslóð. Í því samhengi er hægt að tala um góða ávöxtun.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. nóvember 2020.