8.4 C
Selfoss
Home Fréttir Íþróttaiðkun og Covid-19

Íþróttaiðkun og Covid-19

0
Íþróttaiðkun og Covid-19

Á tímum sem þessum, þegar Covid-19, heldur öllu í heljargreipum, er nauðsynlegt að allir hugsi vel um sig og sína. Íþróttahreyfingin hefur ekki farið varhluta af þessu ástandi sem ríkir. Allar þær takmarkanir sem hafa verið í gildi og eru í gildi , haft mikil áhrif á íþróttahreyfinguna. Áhrifin eru ekki eingöngu fjárhagsleg, heldur einnig hvað varðar allt skipulag og þjónustu við notendur sína, m.a börn og unglinga. Íþróttahreyfingin snýst ekki eingöngu um afreksíþróttir heldur einnig um mikilvægt starf með börnum og unglingum, sem margoft hefur verið bent á að er mikilvægt forvarnarstarf. Þess vegna hefur íþróttahreyfingin gert allt sem í hennar valdi stendur til að reyna að halda úti öllu mögulegu starfi sem hægt er, í takt við gildandi sóttvarnarreglur. Ef ekki er hægt að koma saman til æfinga, hafa þjálfarar verið hvattir til að halda sambandi við iðkendur sína í gegnum samfélagsmiðla eða á annan hátt, útvega þeim æfingaprógrömm til að æfa eftir og hvetja til hreyfingar.

Það sem við, sem stöndum í framlínu íþróttahreyfingarinnar, óttumst mest er að mikið brottfall verði úr íþróttaiðkun vegna þessa ástands, ekki eingöngu vegna þess að ekki er hægt að koma saman og stunda æfingar heldur einnig vegna fjárhagslegrar stöðu foreldra og forsvarsmanna iðkenda. Vegna þessa hafa stjórnvöld sett fjármagn í það verkefni að koma til móts við foreldra og forráðamenn, barna og unglinga, sem hafa misst vinnu og eru tekjulág vegna ástandsins í þjóðfélaginu og hafa ekki ráð á greiðslu æfingagjalda fyrir börn sín. Framkvæmd þessa verkefnis hefst á næstu dögum og verður þá kynnt hvernig standa beri að umsóknum um stuðning vegna greiðslu æfingagjalda.

Við forsvarsmenn íþróttahreyfingarinnar erum sammála um að allir eigi að geta æft íþróttir, óháð efnahag og félagslegri stöðu. Mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn séu í góðu sambandi við þau íþróttafélög þar sem börn þeirra stunda æfingar, hafa stundað æfingar eða langar til að stunda æfingar og fari yfir stöðu sína og fái aðstoð til að þau geti gert það áfram. Við munum leitast við að finna lausnir og aðstoða á allan hátt sem við getum til að öll börn og unglingar geti stundað íþróttir. Það þarf enginn að kvíða því að hafa samband og ræða stöðu sína, það hafa allir hafa skilning á aðstæðum. Ráðherra íþróttamála og félagsmálaráðherra hafa lýst því yfir að þeir muni vinna með íþróttahreyfingunni svo hún komist yfir þetta ástand og geti gefið öllum tækifæri til að stunda íþróttir. Það er viðurkenning á starfi íþróttahreyfingarinnar og mikilvægi þess forvarnargildis sem þær eru.

Stöndum saman á þessum erfiðu tímum og hugsum um börnin og unglingana og gefum þeim öllum tækifæri á að stunda íþróttir, við sitt hæfi.

Helgi Sigurður Haraldsson formaður Frjálsíþróttadeildar UMF Selfoss og varaformaður Héraðssambandsins Skarphéðins.