7.8 C
Selfoss

Stórsókn Árborgarsvæðisins

Vinsælast

Athygli hefur vakið hinn mikli uppgangur sem verið hefur á Árborgarsvæðinu undanfarin ár. Íbúum hefur stórfjölgað í öllum stærstu sveitarfélögunum og uppbygging er á flestum sviðum. Miðpunktur alls þessa er bygging hins nýja miðbæjar á Selfossi, sem mun laða að, ekki bara innlenda og erlenda ferðamenn heldur mun miðbærinn vera fyrirmynd annarra svæða um hvernig unnt er að byggja nýtt en halda þó í heiðri gömul gildi, bæði í byggingarstíl, menningu, fegurð og aðlaðandi útiveru í þéttbýli.

Í fararbroddi
Innan fárra ára má gera ráð fyrir að íbúar Árborgar verði yfir 15 þúsund talsins. Til að þjónusta þann fjölda þarf að byggja upp opinbera þjónustu. Þar er mikilvægt að ríki og sveitarfélagið gangi í takt svo útkoman verði ákjósanleg fyrir íbúana. Inn á svæðið hefur margt streymt margt ungt fólk með börn, en einnig eldra fólk sem kýs að búa í sunnlensku umhverfi. Allt þetta fólk þarf þjónustu af ýmsu tagi. Sveitarfélagið vinnur að fjölbreyttri uppbyggingu, sem óþarft er að tíunda hér því öllum er það augljóst. Ég fagna þó sérstaklega fyrirætlunum um byggingu tveggja þrepa skólphreinsistöðvar við Ölfusá, til verndar lífríki árinnar og lýðheilsu íbúanna. Þessi framkvæmd ýtir undir fegurð svæðisins og verður íbúum öllum til sóma.

Sterkir nágrannar
Það er alls ekki svo að Selfyssingar eða íbúar Árborgar standi þarna einir í stafni á Suðurlandi, heldur er geysilegur framfarahugur á öllu svæðinu svo eftir er tekið. Uppbygging í Ölfusinu og í Hveragerði vekur landsathygli og með löngu tímabærum vegabótum á þjóðvegi eitt frá höfuðborgarsvæðinu og austur um, styrkist allt svæðið. Möguleikum til atvinnuuppbyggingar fjölgar.

Ölfusárbrú og mislæg gatnamót
Loks hillir undir gerð nýrrar Ölfusárbrúar, en þó munu nokkur ár líða áður en umferðarálagi á gömlu brúnni mun létta. Enn er þó óljós framgangur málsins í mörgum smáatriðum, svo sem samvinnu um verkefnið við einkaaðila og útfærsla veggjalda. Höfundur hefur lagt áherslu á að veggjöld verði að ákveða í samræmi við aðrar álögur á bifreiðaeigendur sem og að líta til ferða fólks í gegnum mörg veggjaldahlið á ferðum sínum um landið, allt með það að markmiði að auka ekki álögur á fjölskyldur. Þá telur undirritaður að gera eigi fleiri mislæg gatnamót á leiðinni frá Reykjavík að Selfossi. Þannig sé mikilvægt að slík gatnamót verði á umferðarþungum gatnamótum, eins og t.d. við Hveragerði og Biskupstungnaafleggjara. Þegar horft er til Reykjanesbrautar er þar fjöldi slíkra gatnamóta, sem tryggir öruggari umferð og betra umferðarflæði.

Miklir möguleikar
Suðurland á sér mikla möguleika. Þar er að finna helstu náttúruperlur landsins sem hafa sterkt aðdráttarafl. Svæðið hefur verið miðstöð menningar um aldir og menningartengdir möguleikar nær óþrjótandi. Nálægð við helsta þéttbýlissvæðið, alþjóðaflugvöll og möguleikar á uppbyggingu hafnar í Þorlákshöfn gefa svæðinu möguleika, sem bjóðast vart annars staðar.

Stoðirnar
Mikilvægt er að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulíf á svæðinu. Þar er víða að finna stórhuga fólk sem hyggur á stórfellda atvinnuuppbyggingu. Þar má nefna byggingu gróðurhúsa, fiskeldi á landi, nýsköpun í ferðamennsku, landbúnaði og fullvinnsla í öllum þessum greinum, sem og uppbyggingu hafna og flugvalla. Allt mun þetta renna styrkari stoðum undir velmegun á svæðinu öllu og kerfið má ekki flækjast fyrir. Stjórnmálamenn eiga að einbeita sér að því að þjóna íbúum og einfalda fólki að byggja upp og stofna til atvinnurekstrar.

Karl Gauti Hjaltason
Höfundur er þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi

 

Nýjar fréttir