-1.1 C
Selfoss

Falleinkunn í Rangárþingi ytra

Vinsælast

Fulltrúar Á-lista í Rangárþingi ytra báru upp tillögu á fundi sveitarstjórnar þann 8. október síðastliðinn um að hefja beinar útsendingar frá sveitarstjórnarfundum um næstu áramót. Tilgangur tillögunnar var að færa stjórnsýsluna nær íbúum þannig að þeir geti horft og hlustað hvar sem er í rauntíma. Rangárþing ytra lagði nýlega út í tugi milljóna kostnað við  ljósleiðaravæðingu sveitarfélagsins og er kjörið að nýta þá fjárfestingu til dæmis með því að nýta kosti beinna útsendinga. Sveitarfélagið er víðfeðmt landfræðilega og íbúar sem vilja sækja opna fundi sveitarstjórnar vegna tiltekinna mála þurfa í mörgum tilfellum að aka um langan veg í allskonar færi. Covid-19 hefur einnig sett beinar útsendingar af sveitarstjórnarfundum í nýtt samhengi og gert þær nauðsynlegar svo að hægt sé að uppfylla reglur um aðgengi að opnum fundum og nándartakmarkanir.

Fulltrúar Á-lista bundu vonir við að tillagan yrði samþykkt, þó því miður segi sagan að það séu meiri líkur en minni á því að fulltrúar D-lista í Rangárþingi ytra hafni tillögum sem stuðla að opnu aðgengi íbúa að stjórnsýslunni. D-listinn reyndi að finna mótrök í bókun sinni, snerust þau aðallega um útfærslu tillögunnar í smáatriðum og einkenndust af því að finna vandamál frekar en lausnir.

Ein mótrök D-listans vöktu sérstaka eftirtekt okkar, en þau voru á þá leið að ekki þyrfti beinar útsendingar þar sem upptaka af fundi sveitarstjórnar væri birt „innan tveggja sólarhringa“ eins og reglur segja til um. Rétt er að reglurnar eru til staðar, en enginn metnaður virðist vera til staðar hjá D-lista að fara eftir þeim. Úttekt Á-lista sýnir hvernig reglunum hefur verið fylgt á kjörtímabilinu og lýsa niðurstöðurnar virðingaleysi við samhljóða afgreiðslu sveitarstjórnar um birtingu á upptökum:

 

  • 26 sveitarstjórnarfundir hafa alls verið haldnir á þessu kjörtímabili.
  • 10 fundir hafa verið birtir innan tveggja virkra daga eins og reglur segja til um.
  • 5 fundir hafa aldrei verið birtir (?!).
  • 7 fundir hafa verið birtir 3-9 dögum of seint.
  • 1 fundur var birtur 11 dögum of seint.
  • 1 fundur var birtur 20 dögum of seint.
  • 1 fundur var birtur 64 dögum of seint.
  • 1 fundum var birtur 89 dögum of seint.

Eins og sjá má á þessu yfirliti hefur reglum verið fylgt í 10 skipti af 26. Það gefur einkunnina 3,8 af 10 mögulegum sem er falleinkunn. Fulltrúar Á-lista hafa ítrekað bent á að bæta þurfi þessi vinnubrögð en hafa talað fyrir daufum eyrum. Þeir sem bera ábyrgðina eru framkvæmdastjóri sveitarfélagsins, sem jafnframt er kjörinn fulltrúi, svo og oddviti sem á að fylgja ákvörðunum sveitarstjórnar eftir.

Það kann að vera að einhverjum sem lesa þetta þyki þetta litlu máli skipta. En ef grannt er skoðað, þá snýr þetta að kjarna opins nútímasamfélags og gagnsærri stjórnsýslu. Okkur ber að veita aðgang að fundum sveitarstjórnar því opnir fundir hafa jákvæð áhrif á umræðu og ákvarðanatöku. Bein útsending er auðveldasta leiðin og tæknin er til staðar.Við vonum að D-listinn í Rangárþingi ytra taki skrefið inn í tækniöldina með okkur hinum, ekki seinna en á nýju ári.

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir,

Steindór Tómasson og

Yngvi Harðarson

Fulltrúar Á-lista í sveitarstjórn Rangárþings ytra

 

Nýjar fréttir