-6.6 C
Selfoss

Hvað er hamingja?

Vinsælast

Á heimasíðu Hugarafls segir “ Hamingjan er val, þú getur valið hamingju burt séð frá því hvað er að gerast hjá þér í lífinu hverju sinni. Hamingjan er ákvörðun. Hamingjan kemur innan frá og því þarftu að muna að það er enginn annar en þú sem getur gert þig hamingjusama/n. Hamingja er lífsstíll sem maður velur sér með því að horfa öðruvísi á hið daglega líf. ” Það er mikið til í þessari lýsingu. Það er enginn hlutur eða manneskja sem gerir mig hamingjusama. Ég þarf að vera sátt í eigin skinni, huga og hjarta til að vera hamingjusöm. Hamingjan kemur innan frá og út. Að eiga góða fjölskyldu, góðan maka, góða tengingu við annað fólk og fjárhagsleg öryggi getur svo sannarlega einfaldað lífið til muna og aukið hamingjustuðulinn. Fyrst og fremst þarf þó hamingjan að koma innan frá. Staðreyndin er sú að fólk getur átt allt það sem ég taldi hér á undan en ekki upplifað hamingjuna ef hún kemur ekki innan frá. Ég þekki einstaklinga sem hafa skipti um maka eða vinnu, keypt nýtt hús, flutt í annað land o.s.frv. Allt til þess að leita að hamingjunni. Á sama tíma situr fólk þó uppi með sjálft sig. Það er ekki ábyrgð maka okkar, barna eða vina að gera okkur hamingjusöm. Hvað gerir ykkur hamingjusöm? Spurði ég börnin við matarborðið einn daginn. Svörin voru fjölbreytt: Lego, að baka, skoða bækur, spila körfubolta, vera í fótbolta, að borða, síðan segir yngsti drengurinn stuttu síðar “nú veit ég hvað gerir mig hamgjusaman”, fimleikar!

Já, málið er að rétt eins og við höfum misjöfn áhugamál þá eru það misjafnt hvað veitir okkur gleði. Ég gerði könnun á dögunum og spurði 15 mismunandi einstaklinga úr ólíkum aðstæðum í þjóðfélaginu hvað gerir þá hamingjusama. Svörin voru ólík og fjölbreytt. Rétt eins og einstaklingarnir eru ólíkir, það kemur ekki á óvart. Þú getur verið í draumastarfinu þínu og átt nóg af peningunum en samt ekki upplifað sanna hamingju. Þú getur líka verið amma sem vinnur við að elda mat í skóla með barnabarnið reifað á bakinu en samt hlegið og haft gaman af lífinu eins og konan í Afríkuríkinu Burkina Faso sem ég hitti fyrir nokkrum árum og er mér svo eftirminnileg.. Þú getur kosið hamingjuna. Hamingjusamasta fólkið á ekki endilega alltaf mest af öllu heldur er þakklátt fyrir það sem það á og hefur. Eins og svörin sem ég fékk frá þessum 15 mismunandi eistaklingum gefa til kynna þá upplifir fólk oft hamingjuna þegar það er í núinu. Það gleymir jafnvel erfiðleikunum sem það er að ganga í gegnum um tíma og er þakklátt fyrir augnablikið sem það er að upplifa. Hvatning mín til þín er að reyna að koma auga á það jákvæða sem lífið bíður upp á þessa dagana. Hamingjan er þín!

 

Nýjar fréttir