-8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Mikill fjöldi umsókna í Uppbyggingarsjóð Suðurlands haust 2020

Mikill fjöldi umsókna í Uppbyggingarsjóð Suðurlands haust 2020

0
Mikill fjöldi umsókna í Uppbyggingarsjóð Suðurlands haust 2020
Mynd: Hjörtur Leví.

Í síðust viku rann út umsóknarfrestur til að sækja um styrk í Uppbyggingarsjóð Suðurlands. Mikill fjöldi umsókna barst sjóðnum eða samtals 165 umsóknir. Umsóknirnar skiptast í eftirfarandi tvo flokka, menningarverkefni samtals 93 umsóknir og atvinnu- og nýsköpunarverkefni samtals 72 umsóknir.

Samfélagsleg verðmætasköpun

Við ræddum við Bjarna Guðmundsson, framkvæmdastjóra Samtaka Sunnlenskra sveitarfélaga um uppbyggingarsjóðinn. „Það er ánægjulegt að sjá þann fjölda verkefna sem sækir um í sjóðinn þetta árið. Á þessum tímum er nauðsynlegt að skapa sóknarfæri til framtíðaruppbyggingar. Við höfum séð það, sem komum að starfi sjóðsins, að mörg þeirra verkefna sem hafa hlotið styrkveitingu frá sjóðnum hafa skapað verðmæti fyrir samfélagið í kjölfarið. Það er mikilvægt að hlúa að nýsköpuninni í þeim áskorunum sem blasa við í dag.“  Aðspurður um styrkfjárhæðir segir Bjarni: „Við höfum farið þá leið að styrkja fleiri en færri þó upphæðirnar séu ekki endilega mjög stórar hjá hverjum og einum. Það hefur sýnt sig að vera heillaspor að fleiri geti haft möguleika á því að ýta úr vör með spennandi verkefni.“ Rétt er að benda á að allir umsækjendur fá sendan tölvupóst um niðurstöðu fagráðs og stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga eigi síðar en 2. nóvember 2020.