-4.4 C
Selfoss

Fjölskylduvænt kaffihús á Selfossi

Vinsælast

Í húsnæði þar sem skemmtistaðurinn Frón var áður að Eyravegi 35 er nú búið að opna fjölskylduvænt kaffihús sem ber nafnið Kaffi & Co. Á kaffihúsinu má fá það flest af veitingum sem á góðu kaffihúsi skal vera, einnig er mikið úrval af vegan mat, hvort sem það er fyrir fullorðna eða börn. „Það er markmiðið að sameina fjölskylduna, eiga notalega stund og hafa rýmið þannig að það henti yngri kynslóðinni. Hér er til dæmis skemmtilegur barnamatseðill og lítill kofi sem börnin hafa mjög gaman af að kíkja inn í. Þar er t.d. lítil ísbúð sem hefur gert mikla lukku meðal barnanna, svo er fleira skemmtilegt framundan hjá okkur fyrir börnin“ segir Fríða Steinarsdóttir einn af eigendum staðarins.

Tækifæri þrátt fyrir áskoranir

Þegar við spyrjum Fríðu út í það hvers vegna var ákveðið að fara úr skemmtistað yfir í kaffihús segir hún: „Ég var búin að vera að veltast um með þessa hugmynd í kollinum í langan tíma en ekki komið mér í að framkvæma hana en eins og ástandið í þjóðfélaginu hefur verið var þetta kjörið tækifæri til að láta loksins verða að þessu. Þetta hefur svo að okkar mati verið eitthvað sem hefur vantað hér á Selfossi í sístækkandi samfélagi. Það eru tækifæri í kófinu. Við höfum fengið afar jákvæð viðbrögð við staðnum og fjölskyldufólk komið og heimsótt okkur, sem við erum afar þakklát fyrir á þessum erfiðu og skrítnu tímum. Við bíðum svo bara eftir því að fá að taka flugið almennilega þegar veiran er hætt að láta að sér kveða með öllum sínum takmörkunum,“ segir Fríða.

Matur, gott kaffi og afþreying fyrir litla fætur

Fríða  segir að grunnhugmyndin sé að vera með góðar veitingar og gott kaffi. „Hér eru veitingar sem eru sérsniðnar að börnum á öllum aldri og svo aðrar sem eru fyrir eldri kynslóðina. Það sem er okkar sérstaða er aðstaðan fyrir börnin. Mamma og pabbi fá smá næði til að spjalla og njóta meðan litlir fætur þurfa ekki endilega að sitja kyrrir við borðið. Það er hægt að kíkja í kofann og leika þar eða skoða sig um. Ekki spillir fyrir að þar eru gjarnan leikfélagar sem er gaman að kynnast.“

Nýjar fréttir