-8.8 C
Selfoss

Tæplega 50 einstaklingar þreyttu próf til slökkviliðsmanns

Vinsælast

Það var mikið um að vera við Stóra hól eða Fjallið eina á Selfossi laugardaginn 24. október sl. Þar stóðu yfir inntökupróf hjá Brunavörnum Árnessýslu. Fyrir verðandi slökkviliðsmenn var búið að leggja ýmsar þrautir sem þurfti að leysa. Fyrst var gengið upp hólinn með þungar byrðar, bæði brúsa fyllta vatni og bakpoka með upprúlllaðri brunaslöngu. Að því loknu var brúðu bjargað úr bruna, gengið með þungan búnað, armbeygjur, lyftur og fleira. Næst var bundið fyrir augu og einstaklingar blindaðir. Þannig þurftu þeir að fikra sig áfram í gegnum skóginn við Gesthús eftir bandi sem endaði á að fara inn í þröngt rör og út á hinum endanum til að kanna innilokunarkennd. Á meðan þessu stóð þurftu þátttakendur að svara spurningum um hin ýmsu málefni. Áður en farið var í síðasta hluta verkefnisins var farið upp í körfubíl í hæstu stöðu og lofthræðsla könnuð. Síðasti hluti verkefnisins var að fara í yfirheyrslu hjá stjórnendum Brunavarna Árnessýslu.  Að sögn Péturs Péturssonar, slökkviliðsstjóra gekk dagurinn vonum framar. „Það er ánægjulegt að sjá hvað margir tóku þátt. Sérstaklega var þó ánægjulegt að sjá hve margar konur tóku þátt og skiluðu sínu ekki síður en strákarnir. Í heildina tókst dagurinn vel og nú fara þeir sem sluppu hér í gegn áfram í frekari prófanir og skoðanir.“

Nýjar fréttir