-1.1 C
Selfoss

Ábyrgaleiðin – fyrir Suðurland

Vinsælast

Áskoranir og þau krefjandi verkefni sem við okkur blasa í heimsfaraldri, kalla á pólitískan kjark og skýra framtíðarsýn. Það þarf að stíga fram af meiri festu en ríkisstjórnin gerir í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2021. Áætlanir ríkisstjórnarinnar eru veikar og óábyrgt að ganga ekki lengra í dýpstu efnahagslægð í 100 ár.

Samfylkingin hefur lagt fram tillögur jafnaðarmanna um leiðina úr atvinnukreppu til grænnar framtíðar. Lykilorðin í þeirri ábyrgu leið sem við viljum fara eru vinna, velferð og græn uppbygging.

Nú er rétt að nýta góð lánakjör til lántöku fyrir rekstri og arðbærum fjárfestingum.

Fjölgum störfum

Yfir 20 þúsund Íslendingar vilja vinna en fá ekki vinnu. Atvinnuleysi á Suðurlandi var 8,4% í september. Í þeirri tölu eru ekki þeir sem eru á uppsagnarfresti.

Ábyrga leiðin fjölgar störfum strax, bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Nú er lag að ráðast gegn undirmönnun hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, í velferðarþjónustu við íbúa landshlutans, hjá menntastofnunum og síðast en ekki síst hjá lögreglunni. Viðvarandi undirmönnum eða niðurskurður gera ekkert annað en að dýpka og lengja kreppuna.

Auk þess þarf að beita virkum vinnumarkaðsaðgerðum til að vinna gegn langtímaatvinnuleysi bæði ráðningastyrkjum í samstarfi við sveitarfélögin og fyrirtækin á Suðurlandi og námstengdum úrræðum í samvinnu við menntastofnanir.

Ráðast þarf í framkvæmdir við höfnina í Þorlákshöfn sem mun styrkja aðrar fyrirætlanir um uppbyggingu þar, flýta vegaframkvæmdum sem hægt er að flýta og leggja fjármuni til viðhalds opinberra bygginga á Suðurlandi.

Atvinnuskapandi skattalækkun

Veirufaraldursins má ekki verða til þess að smærri fyrirtæki falli unnvörpum en þau stærri stækki markaðshlutdeild sína og hækki verð í skjóli veikari samkeppni. Við viljum vinna að krafti til að koma í veg fyrir slíkt. Það gerum við með tímabundinni lækkun tryggingagjalds þannig að árið 2021 verði tryggingagjaldslaust ár hjá einyrkjum og smáfyrirtækjum og skili jafnframt snarpri lækkun til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Aðgerðin er tveggja milljóna króna afsláttur af tryggingagjaldi og mun ýta undir fjölgun starfa þar sem tryggingagjaldið leggst flatt á öll störf.

Lækka þarf jaðarskatta á barnafólk með því að draga úr skerðingum barnabóta. Nú byrja barnabætur að skerðast við 325 þúsundkrónur á mánuði. Við viljum taka ákveðin skref í þá átt að barnabætur skerðist ekki fyrr en við meðallaun sem voru um 800 þúsund krónur í fyrra og jafna þannig stöðu barnafólks við hina sem ekki eru með börn á framfæri.

Skerðingar í almannatryggingakerfinu er enn alltof skarpar. Það er mikilvægt að almannatryggingakerfið hvetji til virkni en letji ekki. Þannig viljum við til að mynda hækka frítekjumark öryrkja vegna atvinnutekna sem staðið hefur í stað í áratug. Er rétt um 110 þúsundkrónur á mánuði en ætti samkvæmt launavísitölu að vera nú um 200 þúsund.

Eflum velferð

Efnahagsaðgerðir Samfylkingarinnar miða að því að fjölga störfum eins hratt og hægt er. En það þarf líka að efla velferð og hlaupa undir bagga með þeim sem vilja vinna en fá ekki vinnu eða geta ekki unnið. Þannig sýnum við samstöðu í verki og styðjum í leiðinni við heildareftirspurn í hagkerfinu.

Atvinnuleitendur og fjölskyldur þeirra lenda verst í þeim efnahagserfiðleikum sem nú ganga yfir. Því er nauðsynlegt að hækka grunnatvinnuleysisbætur. Við leggjum til að þær verði 95% af lágmarkstekjutryggingu samkvæmt lífskjarasamningunum. Ef við það væri miðað færu þær í 333 þúsund krónur á mánuði á næsta ári en eru nú rúmar 289 þúsund krónur á mánuði.

Við í Samfylkingunni höfum þegar lagt til að það óréttlæti verði leiðrétt að aðeins þeir sem voru á launatengdatímabili atvinnuleysistrygginga 1. september fái framlengingu á því tímabili um þrjá mánuði. Þau 12.000 sem voru komin á grunnatvinnuleysisbætur við samþykkt lagabreytingarinnar eiga að sjálfsögðu einnig að njóta jafnræðist í þeim efnum.

Þá þarf einnig að tryggja stúdentum rétt til atvinnuleysisbóta í námshléum ásamt því að skapa sumarstörf og efla nýsköpunarsjóð námsmanna.

Almennt verður að hækka ellilífeyri og örorku- og endurhæfingarlífeyri að lágmarkstekjutryggingu og slíkt frumvarp var okkar í Samfylkingunni fyrsta forgangsmál nú í haust. Ef ekkert verður að gert heldur bilið á milli launamanna og þeirra sem reiða sig eingöngu á greiðslur almannatrygginga, áfram að breikka ár frá ári. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verður þetta bil 86 þúsund krónur á mánuði á næsta ári. Hver maður sér að slíkt er óásættanlegt enda eru rökin fyrir lágmarkstekjutryggingu þau að á lægri launum sé vart mögulegt að lifa.

Sveitarfélögin

Sveitarfélögin á Suðurlandi verða flest fyrir miklu tekjutapi vegna falls á útsvarstekjum en einnig vegna lægri framlaga úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Okkur jafnaðarmönnum finnst ekkert annað koma til greina en að ríkið komi til móts við sveitarfélögin svo þau þurfi ekki að skera niður í þjónustu við börn og fatlaða íbúa eða í annarri nærþjónustu. Það er einnig mjög mikilvægt að sveitarfélögin dragi ekki saman í innviðauppbyggingu og fækki með því atvinnutækifærum á svæðinu.

Ríkisstjórnir annarra Norðurlanda hafa heitið því að bæta tekjufall sveitarfélaga að fullu. Ríkisstjórn Íslands hefur bætt tekjufall fyrirtækja en vanrækt sveitarfélögin og heimili atvinnuleitenda. Þessu verður að breyta þegar atvinnuleysið vex og kostnaður í félagsþjónustu vex að sama skapi.

Efla þarf sóknaráætlanir landshluta með myndarlegu fjárframlagi.

Græn uppbygging

Að vinna gegn loftlagsbreytingum af mannavöldum er stærsta áskorun sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Græn jafnaðarstefna þar sem róttækni, raunsæi og samstaða fara hönd í hönd er sterkasta mótefnið gegn hamfarahlýnun og ójöfnuði á heimsvísu.

Til þess að okkar litla íslenska hagkerfi geti staðið undir miklum kaupmætti, háu atvinnustigi og sterku velferðarkerfi þarf að ýta undir fjölbreytta samsetningu atvinnulífs og verðmætasköpunar. Við þurfum græna atvinnustefnu með áherslu á greinar sem skapa verðmæti og vel launuð störf.

Skógrækt er mikilvæg til kolefnisbindingar, skapar atvinnu og hefur jákvæð áhrif á vistkerfi og samfélag. Við viljum ráðast í skógræktarátak um allt land, ekki síst á Suðurlandi.

Okkur er alvara með áætlunum um græna uppbyggingu. Þess vegna viljum við styrkja starfsmenntun að Reykjum í Ölfusi til muna með opinberum umhverfis- og garðyrkjuskóla sem vinnur í nánu samstarfi við fagfélög og fyrirtæki. Aukin grænmetisrækt á Suðurlandi vinnur gegn loftslagsvanda og fækkar kolefnissporum í matvælaframleiðslu.

Við í Samfylkingunni leggjum til stofnun græns fjárfestingasjóðs í eigu ríkisins sem styður við uppbyggingu loftslagsvænnar atvinnustarfsemi.

Við viljum ráðast strax í markvissar aðgerðir til að hraða orkuskiptum og tryggja sveitarfélögum fulla endurgreiðslu fráveituframkvæmda.

Lesið nánar um ábyrgu leiðina á slóðinni: https://issuu.com/samfylking/docs/abyrga_lei_in

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir