-12.7 C
Selfoss
Home Fréttir Opið bréf til sveitarstjórnar Rangárþings eystra

Opið bréf til sveitarstjórnar Rangárþings eystra

0
Opið bréf til sveitarstjórnar Rangárþings eystra

Í kjölfar innleiðingar á nýrri persónuverndarlöggjöf árið 2018 voru þær skyldur settar á sveitarfélög landsins að ráða til sín persónuverndarfulltrúa til starfa fyrir sín sveitarfélög til þess að sinna innra eftirliti, upplýsa og ráðleggja vegna persónuverndarlöggjafarinnar, veita ráðgjöf við framkvæmd mats á áhrifum persónuvernd og vera tengiliður við einstaklinga og Persónuvernd. Samkvæmt lögunum skal persónuverndarfulltrúi búa yfir hæfni og sérþekkingu á innlendum og evrópskum persónuverndarlögum og getu til að efla persónuverndarmenningu hjá viðkomandi stofnun/fyrirtæki. Augljóst er að ofangreindu að erfitt er að finna slíkan aðila innan hvers sveitarfélags sem uppfyllir slík hæfnisskilyrði svo það er fullskiljanlegt að mörg fámenn sveitarfélög landins hafa tekið til þessa ráðs að ráða til sín persónuverndarfulltrúa annars staðar frá sem hafa sinnt slíkri þjónustu úr fjarlægð með aðstoð fjarskiptabúnaðs.

Undirrituð flutti í sveitarfélagið ásamt fjölskyldunni sinni sumarið 2018 þá nýlega útskrifuð frá háskólanum í Osló með LL.M gráðu í Upplýsingartæknirétti. Hefur þar að auki lokið B.A í lögfræði frá háskólanum á Akureyri. Í ljósi þess að atvinnutækifærin fyrir lögfræðing með sérhæfingu í Upplýsingatæknirétti voru ekki á hverju strái hér á svæðinu hóf undirrituð störf hjá ERA, ráðgjafafyrirtæki sem er til húsa í Reykjavík, haustið 2018 og hefur sinnt að mestu leyti í fjarvinnu sökum fjarlægðar. ERA er ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í upplýsingatæknirétti; persónuvernd, rafræn viðskiptum, rafrænum undirskriftum, samningagerð og fyrirtækjarétti almennt.

Undirrituð ákvað síðan í samstarfi við ERA að kanna með áhuga Rangárþings Eystra á að ráða undirritaðri til sín sem persónuverndarfulltrúa og setti sig í samband við fyrrum sveitarstjóra sveitarfélagsins síðsumars 2019 sem tók vel í erindið. Fyrrum sveitarstjóri sagði jafnframt að það væri margfaldur ávinningur fyrir sveitarfélagið að hafa persónuverndarfulltrúa með fasta viðveru á skrifstofu sveitarfélagsins og óskaði eftir því að undirrituð myndi setja saman tilboð um þjónustu persónuverndarfulltrúa sem yrði svo lagt fyrir sveitarstjórn. Undirrituð skilaði inn tilboði 22. júlí 2019 sem lagði áherslu á fasta viðveru á skrifstofu sveitarfélagsins í þeim tilgangi að efla til munar persónuverndarmenningu sveitarfélagsins með aukinni fræðslu til allra starfsmanna sveitarfélagsins. Samkvæmt tölvupóstssamskiptum undirritaðrar við fyrrum sveitarstjóra dróst afgreiðsla málsins eitthvað á langinn fram eftir hausti en svo skyndilega hættu svör að berast frá fyrrum sveitarstjóra og af fundargerðum sveitarstjórnar Rangárþings Eystra haustið 2019 er ekki að sjá á tilboðið hafi verið kynnt eða tekið efnislega til meðferðar hjá sveitarstjórn.

Fimmtudaginn 1. október 2020 barst undirritaðri svo tölvupóstur frá sveitarstjóra sem í stóð að Rangárþing eystra sé að endurskoða samning sinn um þjónustu persónuverndarfulltrúa og hafi undirrituð enn áhuga á málinu hefði undirrituð kost á því að leggja inn tilboð, í seinasta lagi mánudaginn 5. október. Undirrituð þakkaði við póstinn og sendi svo tilboð til sveitarstjóra mánudaginn 5. október. Sveitarstjórinn hefur enn ekki svarað því tilboði en samkvæmt fundargerð sveitarstjórnar fimmtudaginn 8. október kemur fram að sveitarstjórn óski eftir því samhljóða að sveitarstjóri gangi frá samningi um þjónustu persónuverndarfulltrúa við núverandi þjónustuaðila sem er Dattaca Labs, til húsa í Reykjavík. Ekki er að sjá á fundargerðinni að tilboðið frá undirritaðri hafi verið kynnt eða tekið til efnislegrar meðferðar hjá sveitarstjórn.

Á herðum hvers sveitarfélags hvílir mikil ábyrgð um að kappkosta við að halda upp stefnu og vilja um að halda störfum í heimabyggð, þegar sá möguleiki er fyrir hendi í stað þess að útvista störfum til fyrirtækja utan sveitarfélagsins. Eru það mikil vonbrigði að sjá ekki meiri áhuga hjá sveitarstjórn Rangárþings eystra að halda störfum í heimabyggð og þar með efla og styrkja stoðir sveitarfélagsins. Verst þykir undirritaðri þó samskiptin sem hafa einkennst af virðingar- og samskiptaleysi gagnvart undirritaðri af hálfu sveitarstjóra og fyrrum sveitarstjóra Rangárþings eystra þar sem hvorugur hefur lagt það á sig að svara tilboði undirritaðra, sem ætla má að væri undirstaða góðra og eðlilegra samskipta og vinnubragða innan stjórnsýslunnar. Undirritaðri þykir þessi sveitarstjóravinnubrögð Rangárþings eystra vera afar slæleg og veltur því hreinlega fyrir sér hvort að þessi vinnubrögð séu einkennandi fyrir núverandi sveitarstjórn.

Virðingarfyllst,

Heiðbrá Ólafsdóttir, lögfræðingur LL.M og íbúi Rangárþings eystra.