-10.5 C
Selfoss

Menningarsalur Sunnlendinga í augsýn

Vinsælast

Árið 1972 var skóflustunga tekin fyrir nýju húsi á Selfossi sem innihélt hótel, samkomusali, félagsheimili og menningarsal. Miklar vonir og væntingar voru bundnar við nýtt hús í hinum vaxandi Selfossbæ á þessum tíma en fyrir höfðum við íbúarnir eitt besta danshús og bíó landsins í gamla Selfossbíói sem gengdi hlutverki samfélagsmiðstöðvar íbúanna og raunar allra sem hingað vildu koma, margar og bjartar minningar frá þessu magnaða húsi. Naut raunar þess heiðurs að leika á síðasta dansleik sem haldinn var í húsinu með hljómsveitinni Lótus á gamlárskvöld árið 1985 og fram á nýja árið 1986. Í febrúar var svo húsið rifið og síðar sama ár var stóra húsið með félagsheimili, veitingasölum, hóteli og menningarsal tekið í notkun oftast er það í daglegu tali nefnt hótel Selfoss. Því miður var menningarsalurinn og félagsheimilisálman skilin eftir og er svo enn.

Margt hefur á dagana drifið eftir þetta tímabil, Kaupfélag Árnesinga keypti húsið í heid sinni af sveitarfélaginu með ferðaþjónustu sem aðaláherslu og uppbyggingu menningarsalarins einnig og var myndarleg stækkun á hótelinu byggð við vesturendann og litlu munaði að menningarsalurinn kæmist á skrið undir dyggri forystu Sigurðar Jónssonar, en því miður tókst það ekki, þegar harðnaði á dalnum í rekstri KÁ og ferðaþjónustan náði sér ekki á strik. Síðar kom annað rekstrarfélag að hótelinu og fyrir mistök að margra mati datt menningarsalurinn óinnréttaði yfir til nýs félags við þessa eignatilfærslu, en allt um það árið.

Sveitarfélagið eignast salinn að nýju

2013 eignaðist Sveitarfélagið Árborg menningarsalinn að nýju með samningum og uppgjöri fasteignagjalda. Með þessum samningi skapaðist okkur tækifæri til þess aftur að vinna að því af krafti að klára menningarsalinn og skapa aðstöðu fyrir menningu í víðri merkingu fyrir menningartengda starfsemi í Sveitarfélaginu Árborg og á Suðurlandi öllu. Margir hafa verið í rýnihópum og unnið markvisst að því að koma menningarsalnum í gagnið á liðnum árum og lagt gott eitt til. Tónleikar og leiksýningar hafa verið haldnar meðal annars af nemendum í Fjölbrautarskólanum og ungmennaráð Árborgar hefur lagst þungt á árarnar með okkur ásamt fleirum. Frá því ég tók sæti í bæjarstjórn árið 2012 hef ég helgað mig þessari baráttu að ná salnum í gagnið en vissulega höfðu ekki margir trú á því að það myndi nokkurn tíma ganga þar sem ekkert hafði gerst á síðustu áratugum. Við margar kosningar höfðu verið gefin loforð um að klára salinn en ekkert orðið af því. En þó gott sé að þekkja söguna að þá getur verið gott stundum að sleppa baksýnis speglinum og horfa fram á við. Það höfum við gert á síðustu árum og notið til þess þverpólitískrar samstöðu í bæjarstjórn, í íþrótta og menningarnefnd, á vettvangi samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og í þingmannahópi Sunnlendinga einnig höfum við átt gott samstarf við núverandi eigendur og rekstraraðila í Hótel Selfoss. Samningur ríkisvaldsins um uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni er það sem við höfum viljað sækja í hendur ríkisins og á dögunum voru birtar tölur í næsta fjárlagafrumvarpi þar sem gert er ráð fyrir tveimur framlögum í verkefnið fyrir samtals um 280 milljónir. Bæjarstjórn Árborgar var samhljóða búin að samþykkja að koma með samsvarandi framlag í verkefnið ef ríkið kæmi inn. Allar kynningarnar í menningarsalnum með ráðamönnum, þingmönnum, ráðherrum, sveitarstjórnarfólki og fleirum hefur þó skilað okkur á þennan stað og því ber að fagna. Byggingarnefnd hefur hafið störf og undirbýr að verkefnið fari af stað sem allra fyrst eftir að lokahönnun liggur fyrir. Menningin á suðurlandi fær góða aðstöðu til þess að efla sönglistina, leiklistina og önnur þau listform sem þarna munu rúmast. Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveit Íslands fær aðstöðu til þess að leyfa okkur Sunnlendingum að njóta þess sem okkar opinberu menningarstofnanir hafa að bjóða. Nýr menningarsalur mun færa okkur mörg önnur tækifæri í ferðamennsku, fundum, ráðstefnum og tónleikahaldi svo dæmi séu tekin. Til hamingju Sunnlendingar.

 

Kjartan Björnsson,

fulltrúi í íþrótta og menningarnefnd og menningaráhugamaður.

 

Nýjar fréttir