3.4 C
Selfoss

Skýr mörk?

Vinsælast

Í byrjun árs skrifaði ég pistil um það að ég hafi valið orð fyrir árið eins og ég geri í upphafi hvers nýs árs. Orðið sem ég valdi fyrir árið 2020 var orðið jafnvægi. Ekki óraði mig fyrir því að þetta yrði ár sem yrði skrifað í sögubækurnar. Ekki einungis vegna dagsetningarinnar heldur út af “dottlu” eins og svo margir orða það, sem er auðvitað Covid -19 og öll þau áhrif sem sú veira hefur haft. Enn á ný stöndum við frammi fyrir nýjum tilmælum og enn á ný þurfum við að einblína á það að lifa í jafnvægi.

Í pistlinum við upphaf árs ritaði ég

Í upphafi árs sé ég jafnvægi svona:

  1. Jafnvægi á milli þess að þjóta og njóta
  2. Jafnvægi á milli vinnu og hvíldar
  3. Jafnvægi á milli samveru og einveru
  4. Jafnvægi á milli þess að vera heima og ferðast
  5. Jafnvægi á milli þess að borða hollt og minna hollt
  6. Jafnægi á milli bænar og þagnar
  7. Jafnvægi á milli þess að skrifa og lesa
  8. Jafnvægi á milli þess að vera sítengd og aftengd netheiminum
  9. Jafnvægi á milli fjölskyldutíma og stefnumóta með eiginmanninum
  10. Jafnvægi á milli hreyfingar og hugleiðslu

 

Þó svo árið hafi verið skrítið að mörgu leiti þá gildir þessi listi enn í dag fyrir mig.  Í miðju samkomubanni í vor vorum við “neydd” til að hægja á en nú eru ekki eins miklar takmarkanir í samfélaginu og þá. Því þurfum við að gæta okkar að fara ekki aftur í sama hraða og fyrir Covid. Við höfum lært að hreyfa okkur á fjölbreyttari hátt en áður, við höfum lært meira á tæknina en flest okkar hafa á sama tíma áttað okkur á að við þráum meiri tengingu við fólk en tæki.

Það sem þarf ef til vill að passa betur nú en áður er þetta skýra bil á milli þess að vinna og vera í fríi. Margir hafa unnið meira heima en áður og nú eru skýr fyrirmæli um það að vinnustaðir búi til tækifæri fyrir einstaklinga til að vinna að heiman. Í þannig aðstæðum er mikilvægt að virða vinnutíma og muna að þó þú sért heima að vinna þá þýðir það ekki að þú þurfir alltaf að vera í vinnunni. Þú getur sett mörk og sagt nei. Það má líka. Það er mikilvægt að virða jafnvægi á milli vinnu og hvíldar.  Það er líka mjög mikilvægt að gefa börnunum sínum athygli. Fyrir Covid var oft lítill tími sem fjölskyldan átti saman. Eftir Covid átti fjölskyldan ef til vill meiri tíma saman. En það er munur á því að vera saman í sama herbergi en allir uppteknir í sínu eða vera saman og gefa hvort öðru athygli.

Jafnvægi er best á öllum sviðum lífsins. Ég hvet þig til að skoða hvernig jafnvægið í þínu lífi lítur út þessa stundina. Ég sé það strax að ég þarf að muna að njóta betur, hvíla meira, lesa meira og fara á fleiri stefnumót með manninum mínum. Þetta er ekki listi sem hægt er að fullkomna. Þetta er listi sem er gott að hafa sem viðmið og muna að þó svo maður nái ekki jafnvægi á öllum sviðum þá getur maður gert betur næst.

Föstudaginn 2. Október verðum við hjá SWIPE Club með ókeypis netþjálfun í boði fyrir alla sem vilja vera með. Þennan dag verð ég með fyrirlestur um Hugarró í heimsfaraldri. Þar mun ég gefa góð ráð hvað varðar jafnvægi.  Sölvi Tryggvason gefur góð ráð varðandi heilsuna og Rafn Franklín með frábær ráð fyrir alla þá sem vilja bæta svefninn sinn. Ég hvet þig til að skrá þig á þess netþjálfun á heimasíðunni minni www.gunnastella.is

 

Hafðu það sem allra best,

Kærleikskveðja,

Gunna Stella

 

 

 

 

 

 

Nýjar fréttir