4.5 C
Selfoss

Lobbýið opnað á Selfossi

Vinsælast

Í dag, mánudaginn 5. október, opnaði ný hársnyrtistofa sem ber nafnið Lobbýið, dyr sínar að Eyravegi 2 á Selfossi, þar sem Riverside café & bistro var áður til húsa. Eigendur stofunnar eru þau Gústaf Lilliendahl, rekstrarstjóri, Unnur Ósk Magnúsdóttir og Rebekka Kristinsdóttir. „Stofan okkar leggur áherslu á notalegt umhverfi og lúxusþjónstu. Við höfum lagt mjög hart af okkur sl. einn og hálfan mánuð við að gera stofuna eins flotta og við mögulega getum og erum við mjög stolt af útkomunni,“ segir Gústaf, uppfullur af spenningi. Á stofunni verður að finna sama starfsfólk og var á Bylgjum og börtum, sem var lokað í síðustu viku, en ásamt eigendum eru Elín Gestsdóttir og Þóra Valdís Hilmarsdóttir að vinna á stofunni.

Mikil óvissa með framkvæmdirnar

„Meðan á framkvæmdum stóð ríkti auðvitað mikil óvissa í samfélaginu vegna þriðju bylgju Covid-19. Ég verð að viðurkenna að það var alveg smá stress í okkur hvort við myndum fá að opna í byrjun október eins og til stóð,“ segir Gústaf. Það tókst, en sóttvarnaraðgerðir gera ráð fyrir að hársnyrtistofur geti enn verið opnar. Gústaf bætir við að sóttvarnir verði, líkt og áður, upp á tíu: „Við höldum áfram að nota grímurnar góðu, ásamt því að vera með spritt úti um allt.“

Ólík öðrum stofum

„Það sem gerir stofuna ef til vill frábrugðum öðrum er t.d. að við erum með sér sjampóherbergi þar sem kúnnarnir okkar geta fengið að slaka á í ró og næði á meðan verið er að þvo eða skola hárið þeirra,“ segir Gústaf, en hugmyndina að því herbergi fékk hann í Svíþjóð þar sem hann og Unnur Ósk voru að vinna. „Einnig viljum við að fólk fái ákveðinn dekur fíling þegar það kemur til okkar í klippingu eða litun,“ segir Gústaf, en vill þó ekki útskýra það nánar. „Fólk verður bara að mæta á staðinn,“ segir hann með bros á vör. „Við erum öll sjúklega spennt fyrir þessari nýju stofu okkar og vonum við að fólk eigi eftir að eiga notalegar stundir hjá okkur í stólunum,“ segir Gústaf í lokin.

Nýjar fréttir